Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, þakkaði stuðninginn er hann veitti viðtöku um 31.000 undirskrifta stuðningsmanna sinna fyrir stundu sem skoruðu á hann að bjóða sig fram fimmta kjörtímabilið í röð.
„Stund eins og þessi var eitthvað sem var ekki í mínum huga ... sérstaklega eftir nýársávarpið á sínum tíma... Mér hafði verið tjáð að Guðni Ágústsson ætli að hafa orð fyrir ykkur, ef það er rétt skilið,“ sagði Ólafur Ragnar.
Snýst um traust
Guðni steig þá fram og sagðist leggja fram áskorun 31.287 fullgildra einstaklinga auk 486 einstaklinga sem talið er að hafi gert innsláttarvillu við innskráningu á vefinn askoruntilforseta.is.
„Sú undirskriftasöfnun sem við afhendum þér núna snýst um ... traust,“ sagði Guðni og tók fram að nú virtist sem veröldin öll væri á hverfandi hveli.
Guðni vísaði svo til efnahagshrunsins og eftirmála þess.
Stærsta áskorun sem lögð hefur verið fram á Íslending
Málsvörn Íslands hefði verið lítil sem engin þegar eitt öflugasta ríki Evrópu beitti Ísland hryðjuverkalögum. „Það stríð Bretanna var verra en öll landhelgisstríðin til samans.“
„Íslenska hafnaði með eftirminnilegum hætti að taka á sig skuldir einkabanka og óreiðumanna... Eftir henni [niðurstöðu atkvæðagreiðslnanna] er tekin og hún er nýtt leiðarljós gegn græðgi og ósvífni... Þetta er stærsta áskorun sem lögð hefur fram á íslenskan einstakling.“
Mikilvægt að forsetinn gefi kost á sér
Mikilvægt væri á tímum óvissu og átaka að forsetinn gæfi kost á sér áfram þannig að þjóð fengi notið leiðtogahæfni og forystuhæfileika.
Kallaði Guðni því næst á Baldur Óskarsson, gamlan samherja Ólafs Ragnars og forystumann undirskriftasöfnunarinnar.
„Baldur náttúrlega loftar ekki þessum lista,“ sagði Guðni og viðstaddir hlógu.