Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra treystir á stuðning Össurar Skarphéðinssonar utanríkisráðherra um að styðja þá tillögu að kosið skuli um aðild að ESB innan árs eða í síðasta lagi samhliða næstu alþingiskosningum vorið 2013. Hann sakar ESB um að bera fé á Íslendinga til að tryggja stuðning.
Ögmundur telur það raunhæft markmið að ljúka aðildarviðræðum innan þessa tíma og vísar í því efni til reynslu Norðmanna.
„Ég held að það sé mjög raunhæft að ætla að allir geti sameinast um þessa tillögu því ég geng út frá því að öll viljum við virða lýðræðið og gæta hagsmuna Íslands sem best. Norðmenn sóttu um aðild að ESB á sínum tíma, gengu frá samningi sem þjóðin síðan felldi.
Margir telja að að þetta hafi skaðað norska hagsmuni í samskiptum við ESB. Heppilegra hefði verið að kjósa um efnislegar niðurstöður áður en samningur var frágenginn. Af þessu eigum við að læra, ekki síst þegar í ofanálag verið er að þröngva okkur til að gangast undir skuldbindingar um aðlögun sem óþarfar væru nema við ákvæðum að samþykkja aðild. Hér er því um það að ræða að standa við ályktun okkar á Alþingi, frá vorinu 2009, um að fá efnislegar niðurstöður og kjósa á grundvelli þeirra.“
Myndi draga úr væringum í þjóðfélaginu
Ögmundur telur að allir ættu að geta unað við þessa niðurstöðu.
„Ég tel að þetta sé lausn sem allir ættu að geta unað við en með því að hraða viðræðum og fastsetja að málið fari fyrir þjóðina eigi síðar en í næstu alþingiskosningum yrði dregið úr þeim miklu væringum og deilum sem aðildarumsóknin hefur valdið. Þetta mál er að verða þjóðinni til stórskaða. Það er sundrandi, í það fara gríðarlegir fjármunir og tími. Á komandi mánuðum þarf að fá fram efnislega niðurstöðu í þeim málum sem heitast á okkur brenna og að síðan verði efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um hana. Mér þykir þetta svo borðleggjandi og vildi sjá rök þeirra sem þessu eru andvígir.
Ég veit hins vegar að þetta er málamiðlun á milli tveggja póla. Þetta er millileið á milli þeirra sem vilja að Alþingi samþykki að slíta viðræðunum þegar í stað – þennan rétt áskildu menn sér við atkvæðagreiðsluna vorið 2009 – og hinna sem vilja klára endanlegan samning jafnvel þótt það kæmi til með að dragast einhver ár eftir því hvernig lægi á mönnum í Reykjavík og Brussel. Um þessar tvær leiðir verður aldrei breið sátt. Ég tel að leiða eigi viðræðurnar til efnislegrar niðurstöðu eftir því sem kostur er innan þess tímaramma sem við ákveðum. Síðan kjósum við.“
Ísland myndi glata sjálfstæði sínu
- Þú minntist á Olof Palme í ræðu þinni á flokksráðsþingi VG á föstudaginn var og hvernig Svíar hefðu glatað forræði yfir eigin utanríkisstefnu. Hvaða áhrif hefði innganga í ESB á utanríkisstefnu Íslands?
„Ef við göngum inn í ESB erum við þar með að leggja okkar utanríkisstefnu undir hatt sambandsins. Þá fylgjum við sömu stefnu og ESB gerir í utanríkismálum. Við höfum sérstöðu og í viðræðunum kveðumst við vissulega vilja halda sérstöðu varðandi Ísland sem herlaust land. Þetta yrði eflaust viðurkennt en við verðum að horfast í augu við að ef við gengjum í sambandið yrðum við undir straujárni ESB í utanríkisstefnunni, á sama hátt og Svíar sem áður skáru sig úr í samfélagi þjóðanna.
Það er löngu liðin tíð. Nú sitja Svíar í samræmingarherbergjunum og rödd þeirra verður ekki greind frá öðrum í ESB-kórnum. Í þessu sambandi nefni ég að það eru ekki einstök aðildarríki ESB sem semja við Alþjóðaviðskiptastofnunina eins og við gerum heldur gera þau það sem eitt samband og hefur oft verið talað um lýðræðishalla í því sambandi. Þannig að við myndum glata forræði yfir sjálfstæðri utanríkisstefnu á mörgum sviðum.“
Íslendingum settar sífellt þrengri skorður
Ögmundur heldur áfram:
„Ég tel að fyrst og fremst værum við að afsala okkur lýðræðislegu valdi. Við erum að finna það og höfum verið að finna það í gegnum EES-samninginn að valdi okkar til að skipuleggja eigið samfélag eru settar sífellt þrengri skorður.
Ef við förum í ESB verður þessi stakkur enn þrengi því hann tekur til fleiri sviða. ESB gengur út á samhæfingu og samræmingu og með inngöngu í ESB erum við að afsala okkur mikilvægum yfirráðum yfir eigin samfélagi svo ekki sé minnst á auðlindirnar og hvernig við ráðstöfum þeim.
Ég finn fyrir gríðarlegum meðbyr með þessari umræðu. Meira að segja mjög ákafir aðildarsinnar segjast vera tilbúnir að skoða þessa leið ef hún gæti orðið til þess að setja niður deilur í landinu og verja betur íslenska hagsmuni.“
Treystir á stuðning Össurar
- Hvað um Samfylkinguna og ekki síst Össur Skarphéðinsson? Hvernig heldurðu að samstarfsflokkurinn bregðist við tillögunni?
„Ég veit að utanríkisráðherrann er lýðræðissinni í orði og vill einnig vera það í gjörðum sínum. Tillagan er lýðræðisleg og gæti ég best trúað að hann tæki henni vel, enda er með þessu staðið við fyrri skulbindingar en með það í huga að tryggja íslenska hagsmuni í samræmi við þjóðarvilja.
Þar er ég að horfa á yfirlýsingar og áherslur utanríkismálanefndar ESB sem og ráðherraráðs sambandsins varðandi Ísland og viðræðurnar við okkur. Þar er verið að leggja að okkur að opna á fjárfestingar í orkugeiranum, kvartað er yfir því að við hleypum ekki erlendu fjármagni að sjávarútveginum sem nú sé verndaður gegn erlendri fjárfestingu.“
ESB ber fé á Íslendinga
Ögmundur segir Evrópusambandið vilja opna fyrir aðgang erlendra aðila að íslenskum auðlindum.
„Þannig að sambandið vill að við opnum þessa geira, orkugeirann sem nú er í þjóðareign og sjávarútveginn þar sem við höfum reynt að halda eignarhaldinu í okkar samfélagi. Þá lít ég svo á að kröfur ESB um að við leggjum fram skuldbindingar eða þingmál um aðlögun að regluverki Evrópusambandsins gangi of langt, séu frekar og ágengar, ekki síst þegar hliðsjón er höfð af því að peningabúntum er sífell veifað til að smyrja vilja okkar til verka. Þetta er eyðileggjandi fyrir samfélagið.
Við skulum standa við okkar ákvarðanir og skuldbindingar en hugsa nálgun og tímasetningar upp á nýtt. Nú þarf að taka af skarið,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.