„Starfsfólkið er alveg miður sín yfir svona umfjöllun um okkur,“ segir Guðný Atladóttir, framkvæmdastjóri Café Paris, um þá umræðu að ung kona með barn á brjósti hafi verið beðin um að færa sig til, til að gefa barni sínu. Guðný segir að umræðan hljóti að vera byggð á misskilningi.
Guðný segist hafa heyrt af umræðunni fyrir helgi og starfsfólk hennar hafi einmitt verið að ræða það á staðnum. „Þau veltu fyrir sér hverjum hefði dottið í hug að gera svona. Nú er starfsfólkið miður sín, að sagt sé að það komi nálægt þessu því þau voru öll svo viss um að þetta væri ekki hjá okkur.“
Eins og mbl.is greindi frá fyrr í dag hefur verið stofnaður hópur á Facebook og efnt til hópbrjóstagjafar á fimmtudag til að mótmæla því að konan hafi verið beðin um að færa sig. Þar segir einnig að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem þetta komi fyrir á Café Paris.
Guðný segist hafa verið að reka augun í þennan hóp og verið sé að skoða málið. „Við erum að reyna að rekja þetta því þetta tengist okkur örugglega ekkert, og er vísast til kolrangt. Ungar konur gefa brjóst hjá okkur á hverjum degi og það er aldrei fett fingur út í það.“
Hún segir að ungar mæður komi jafnvel í hópum og geymi barnavagna sína á neðri hæðinni. „Það hefur aldrei verið afstaða okkar að banna brjóstagjöf úti í sal. Og mun aldrei verða.“
Meðal þess sem kemur fram á Facebook-síðunni er að umræddur starfsmaður hafi verið ávíttur. Guðný segir þetta einnig misskilning því enginn hafi verið ávíttur á Café Paris vegna þessa máls. Hún segir einnig, að hún myndi vita það ef svo væri. „Við höfum verið að vinna í því að bæta okkur í öllu sem hægt er og unnið út frá athugasemdum frá gestum. Það hefur skilað miklum árangri og vel verið skrifað um Café Paris m.a. í Trip Advisor. Starfsfólkinu finnst því eins og það sé verið að slá það utan undir með þessari umfjöllun.“