Sýslumaðurinn í Reykjavík stöðvaði í síðustu viku fjögur uppboð þar sem bjóða átti upp eignir. Ástæðan er sú að lántakar höfðu tekið gengistryggð lán, en fyrr í þessum mánuði féll dómur í Hæstarétti þar sem vaxtaútreikningi fjármálastofnunar á slíku láni var hafnað.
„Ef það koma fram mótmæli við nauðungarsölu út af svona lánum [gengistryggðum lánum] þarf sýslumaður að taka afstöðu til þess hvort á að stöðva nauðungarsöluna eða hvort hún haldi áfram. Í síðustu viku reyndi á þetta og þá voru stöðvuð fjögur uppboð,“ segir Sigríður Eysteinsdóttir, deildarstjóri fullnustudeildar hjá sýslumanninum í Reykjavík.
Sigríður segir að þegar uppboð er stöðvað þurfi kröfuhafinn að bera ákvörðun sýslumanns undir héraðsdóm ef hann vill halda nauðungarsölunni áfram. Héraðsdómur tekur þá ákvörðun um hvort ákvörðun sýslumanns standi. Sigríður segir að ef kröfuhafinn leggi málið ekki fyrir héraðsdóm falli nauðungarsalan niður. Ef hann vill á síðari stigum krefjast nauðungaruppboðs vegna skuldarinnar þá verður hann að leggja fram nýja beiðni um uppboð.
Í lögfræðiáliti sem lögmannsstofan Lex vann fyrir Samtök fjármálafyrirtækja um nýgenginn dóm Hæstaréttar um gengisbundin lán segir að dómurinn fjalli eingöngu um þau tilvik þar sem fullnaðarkvittanir liggi fyrir. Í álitsgerðinni segir að ef lán séu í vanskilum og ekki liggi fyrir fullnaðarkvittun megi krefjast óverðtryggðra seðlabankavaxta afturvirkt. Þeir vextir eru mun hærri en nafnvextir lánanna.