„Það er nú erfitt í sjálfu sér að tjá sig um þessi mál á meðan maður hefur engar upplýsingar í höndum annað en þessa skrítnu fjölmiðlaumfjöllun í gær,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, á Alþingi í dag í svari við fyrirspurn frá Gunnari Braga Sveinssyni, þingmanni Framsóknarflokksins, þess efnis hvort ekki væri nauðsynlegt að rannsókn færi fram á því hvort það væri rétt að einstakir þingmenn hefði átt þátt í að skipuleggja árásir á lögreglu í búsáhaldabyltingunni.
Steingrímur sagðist ekki vita betur en að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefði lýst því yfir að engin rannsókn væri í gangi á vegum lögreglunnar í þeim efnum eða skýrslugerð heldur væri einungis um það að ræða að tiltekinn yfirlögregluþjónn væri að safna saman upplýsingum um málið til þess að halda þeim til haga.
„Sé svo þá er náttúrulega mjög alvarlegt ef það er sett í loftið að það sé verið að vinna á þeim grunni að einhverjir tilteknir þingmenn, án þess að nafngreina þá, án þess að leggja fram neinar sannanir, hafi ekki bara fjarstýrt þessum mómælum, sem er náttúrulega afar fjarstæðukennt að láta sér detta í hug að einhverjir hafi gert, og annað og öllu alvarlegra ef menn eru að láta að því liggja að þessir þingmenn hafi reynt að hafa áhrif á það hvernig mótmælin færu fram þannig að það gerði lögreglunni erfiðara um vik eða stofnaði henni í hættu. Og ég sit ekki undir því ef mitt nafn er dregið inn í slíkt, og er alveg sama hver í hlut á, að ósekju að það sé gert án þess að gögn séu þá lögð á borðið, sannanir færðar fram og ég komi mínum sjónarmiðum að í þeim efnum,“ sagði Steingrímur.
Hann sagði slíkar ásakanir með öllu tilhæfulausar í hans tilviki enda hefði hann ásamt öðrum í stjórnmálunum reynt á þessum tíma að hvetja fólk til friðsamlegra mótmæla. Sagði hann það alvarlega ásökun að ætla mönnum að hafa verið að ganga fram í þeim efnum þvert um hug sér.
„Ef að svona ásakanir verða uppi eða dylgjur sem ég kýs að kalla það þá skulum við rannsaka það og þá líka allt saman. Og við þurfum þá væntanlega að rannsaka mótmælin sem héldu áfram og urðu hér við þingsetningu í fyrra og hittifyrra og hverjir tengdust þeim,“ sagði Steingrímur.
Gunnar Bragi svaraði á þá leið að Steingrímur væri þá væntanlega hlynntur því að þessi mál yrðu rannsökuð og myndi þá væntanlega styðja þingsályktunartillögu þess efnis sem lögð hefði verið fram.