„Ef menn eru að ræða um mitt nafn í því samhengi, þá mun ég krefjast þess að lögreglan leggi þau gögn á borðið.“
Þetta segir Steingrímur J. Sigfússon vegna ummæla Geirs Jóns Þórissonar yfirlögregluþjóns um að alþingismenn hafi stýrt mótmælum á Austurvelli á sínum tíma og með því stuðlað að því að harðar var veist að lögreglumönnum. Geir Jón hefur ekki nefnt nein nöfn en í fyrri umræðu um þetta mál hefur nöfn Álfheiðar Ingadóttur og Steingríms borið á góma.
„Það er eins fjarri lagi og nokkuð getur verið að ég og aðrir alþingismenn hafi staðið fyrir slíku. Það er ósæmilegt að vera uppi með slíkar ásakanir nema menn færi sönnur fyrir því og ef einhver getur það þá er það lögreglan, því hún er að vinna að þessu málum,“ sagði Steingrímur í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.
Ekki náðist í Álfheiði í gær vegna málsins en í umræðum á Alþingi hefur hún harðneitað því að hafa haft einhver áhrif á mótmælin.