„Fyrst Ögmundur reisir þessa kröfu nú af svo miklum krafti þá hefði hann betur beitt sér innan villikattavængsins í VG ásamt vini sínum í utanríkisráðuneytinu til að flýta viðræðunum þannig að það væri hægt að ljúka þeim fyrir lok kjörtímabilsins. Það hefði verið langæskilegast,“ segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra um þá tillögu innanríkisráðherra að kosið skuli um aðild að ESB innan árs eða samhliða næstu alþingiskosningum.
„Það er hins vegar staðreynd sem allir þekkja að sá vængur móaðist gegn því af öllu afli að erfiðir kaflar væru opnaðir til samninga, til dæmis landbúnaðarkaflinn. Það andóf beinlínis vann gegn því að hægt væri að ljúka málinu fyrir þingkosningar. Sjálfur sagði ég á síðasta ári að dvínandi líkur væru á að það tækist, meðal annars vegna skorts á samræmdu göngulagi. Mér finnst heldur seint í rassinn gripið hjá félaga Ögmundi að sjá það loksins núna.
Mér skildist líka á ræðu hans á flokksráðsfundi VG að hann vildi rumpa málinu af í hvelli, og koma heim með hvaða samning sem er. Satt að segja er það ekki í þágu hagsmuna Íslendinga þegar einn öflugasti ráðherra ríkisstjórnarinnar sendir ESB þau boð að ríkisstjórn Íslands sé til í að setja nafnið sitt undir nánast hvað sem er og henda því í þjóðaratkvæði. Það er ekki líklegt til góðs samnings.“
Falið að ná sem bestum samningi
Össur rifjar upp markmið sitt sem forystumaður í aðildarviðræðunum.
„Mér var falið af Alþingi að koma heim með besta hugsanlega samning, og það ætla ég að gera. Jafnvel menn eins og Ögmundur verða að gera ráð fyrir þeim möguleika að samningurinn verði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu – og þá þarf hann vitaskuld að vera sem allra bestur. Þyki Ögmundi seint ganga þekkir hann manna best ástæðuna fyrir því,“ segir Össur Skarphéðinsson.