Forsetinn að týnast í sjálfum sér

Styrmir Gunnarsson
Styrmir Gunnarsson Ragnar Axelsson

„Það er auðvelt fyrir þá, sem lengi eru í sviðsljósinu að tapa áttum,“ skrifar Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, um forsetann og framgöngu hans á Bessastöðum í gær. „Allir þeir, sem lengi standa á þjóðarsviði ... eru í þeirri hættu að týnast í sjálfum sér, verða svo sjálfhverfir að halda að allt snúist um þá. Svo er ekki. Menn koma og fara.“

Styrmir skrifar á vef sinn Evrópuvaktina.

„Það er auðvelt fyrir þá, sem lengi eru í sviðsljósinu að tapa áttum. Það á við um stjórnmálamenn, viðskiptajöfra, listamenn og marga fleiri. Allir þeir, sem lengi standa á þjóðarsviði, hvort sem er í fámenninu hér eða í fjölmennari samfélögum eru í þeirri hættu að týnast í sjálfum sér, verða svo sjálfhverfir að halda að allt snúist um þá. Svo er ekki. Menn koma og fara. Það eru engin ofurmenni á ferð, hvorki hér né annars staðar, heldur ósköp venjulegt fólk.

Þessar vangaveltur sóttu á hugann, þegar hlustað var á forseta Íslands á Bessastöðum í gær. Hann upplifir undirskriftasöfnun Guðna Ágústssonar og félaga sem einhvern þunga af hálfu þjóðarinnar um að hann sitji áfram í embætti. Það er áreiðanlega umtalsverður misskilningur, þótt auðvitað sé ljóst að einhverjir vilji það. Hið sama hefur áreiðanlega átt við um Vigdísi Finnbogadóttur, þegar hún lét af embætti. Telja má víst að margir Íslendingar hefðu viljað að hún héldi áfram. Svo má líka líta á slík sjónarmið sem kurteisi við fráfarandi forseta.

Það er ekki gott fyrir lýðræðisríki, að sami einstaklingur sitji of lengi í embætti þjóðhöfðingja. Og raunar ætti reynsla okkar af forsetaembættinu að vera orðin sú að skynsamlegt sé að ákveða í stjórnarskrá, að forseti sitji ekki lengur en tvö kjörtímabil í embætti. Þá er minni hætta á að sá sem situr Bessastaði fái einhverjar misskildar hugmyndir um sjálfan sig og eigin stöðu.

Það er nú þegar orðinn til vandræðagangur í kringum lok á embættisferli núverandi forseta sem ekki hefði þurft að koma til. Ólafur Ragnar hefur verið umdeildur forseti og sennilega hefur hann sótzt eftir því frekar en hitt og ekkert við því að segja.

Taki hann hins vegar ákvörðun um að gefa kost á sér á ný vegna þess að hann trúi eigin túlkun á „þunga“ almenningsálitsins í þá veru má búast við að forsetakosningarnar verði tilefni til ítarlegri umræðna um forsetaferil hans en hingað til hafa farið fram. Þeim verður ekki fyrst og fremst haldið uppi af gömlum pólitískum andstæðingum hans heldur pólitískum samherjum frá fyrri tíð.

Slíkt „uppgjör“ um forsetatíð Ólafs Ragnars er ekki það eftirsóknarverðasta fyrir íslenzt samfélag um þessar mundir. Nóg er nú samt.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka