„Auðvitað væri það þannig að ef tímabilið væri ákveðið í stjórnarskránni þyrfti hvorki ég né aðrir að standa frammi fyrir þeim vanda sem við erum nú að fjalla um hér í dag,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, á Bessastöðum í dag og gagnrýndi stjórnlagaráð fyrir seinagang.
„Ég hef nú sett mér þá reglu að lýsa ekki skoðunum á einstökum tillögum stjórnlagaráðs. Ég hins vegar dró þær tillögur saman í setningarræðu minni fyrsta október þegar Alþingi var sett. Eins og Þorsteinn Pálsson benti á - ég held að ég sé eini kjörni ráðamaðurinn sem hefur farið fram og fjallað um þessar tillögur með þeim hætti - en ég tel óeðlilegt að ég sé að lýsa afstöðu til einstakra tillagna með öðru móti.“
Af hverju aðeins forsetinn?
Forsetinn hélt áfram og sagði þá umræðu eðlilega að takmarka bæri embættistíð sitjandi forseta hverju sinni. Hitt væri óeðlilegt að aðeins væri horft til forsetans í þessu efni.
„Auðvitað er hægt að færa margvísleg rök fyrir því að takmarka setu manna í kjörnum embættum og ef menn vilja fara inn á þá braut vekur það auðvitað spurningar af hverju á það bara að vera um forseta en ekki um ráðherra eða þingmenn... Þar eru tillögur gagnvart ráðherrunum líka en þær eru með öðrum hætti. Það hafa ýmis lönd farið þessa leið. Ég þekki það mjög vel. Lönd í Suður-Ameríku til dæmis.
Það hafa verið víðtækar umræður í Bandaríkjunum. Slíkar breytingar þurfa þá að vera í samhengi við ýmislegt annað. Auðvitað væri það þannig að ef tímabilið væri ákveðið í stjórnarskránni þyrfti hvorki ég né aðrir að standa frammi fyrir þeim vanda sem við erum nú að fjalla um hér í dag.“
Hvatning til Alþingis
Ólafur Ragnar rifjaði upp hvatningarorð sín til Alþingis.
„Ég hef hins vegar hvatt Alþingi til þess að taka þessa tillögu til skoðunar. Ég hvatti Alþingi til þess fyrsta október að gera það í tæka tíð fyrir næstu forsetakosningar, svo að þjóðin vissi til hvers konar embættis hún væri að kjósa þegar hún gengi að kjörborðinu til að kjósa forseta. Mér finnst það varla boðlegt gagnvart þjóðinni eða stjórnskipun landsins að það sé allt upp í loft um það hvers konar embætti þjóðin er að kjósa til, æðsta embættis þjóðarinnar, hvort sem ég á í hlut eða einhverjir aðrir.
Ég átti satt að segja von á því þegar ég flutti þá ræðu ... en því miður virðist stefna í það að það verði ekki upp gert þegar kemur að forsetakosningum og þjóðin muni þess vegna ganga að kjörborðinu í þeim kosningum hafandi í raun og veru enga hugmynd um það hver verður staða þessa embættis í stjórnskipuninni á næstu árum og áratugum.“