Hækka verð á Fréttablaðinu

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla.
Ari Edwald, forstjóri 365 miðla. Ómar Óskarsson

Verð á Fréttablaðinu til verslunarmanna á landsbyggðinni hækkar úr 150 kr. í 199 kr. frá og með 1. mars, eða um tæp 33%. Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, segir um kostnaðarþróun að ræða vegna framleiðslu og dreifingar en verslunareigandi sem hringdi til Morgunblaðsins sagðist afar ósáttur.

Fréttablaðinu er dreift frítt innan ákveðins kjarnasvæðis, eins og það er skilgreint hjá 365 miðlum, þ.e.a.s. á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri og á svæðum frá Árborg til Borgarness. Frá og með fimmtudeginum hækkar leiðbeinandi útsöluverð utan kjarnasvæðisins í 199 kr. en kaupmönnum er í sjálfsvald sett hvað þeir selja eintakið á.

Verslunareigandi á landsbyggðinni sem hafði samband við Morgunblaðið kvaðst afar ósáttur við hækkunina. Aukinn kostnaður sé lagður á lesendur utan kjarnasvæðisins en þeir sem hafi hingað til fengið blaðið frítt muni fá það áfram sér að kostnaðarlausu.

Hann segist hafa rætt við aðra kaupmenn og hafi þeir talað um að hætta að selja Fréttablaðið en hinsvegar vilji þeir ekki koma fram undir nafni. Ari segist ekki hafa orðið var við kvartanir frá kaupmönnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert