„Stjórnarskrá sem rís undir nafni er í eðli sínu samfélagssáttmáli. Þess vegna á að ríkja um hana sátt og samstaða og hún á ekki að taka breytingum nema brýna nauðsyn beri til," segir Pétur Hafstein, forseti kirkjuþings og fv. hæstaréttardómari í Morgunblaðinu í dag.
Hann segir að í tillögu stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sé íslenska þjóðkirkjan hreinlega fjarlægð úr þeim samfélagssáttmála, sem stjórnarskrá verður að vera og að um þjóðkirkju hafi þó verið mælt í stjórnarskrá allt frá árinu 1874.
„Það nægir að mínum dómi ekki að leggja fram tillögu að nýrri stjórnarskrá þar sem engu er slegið föstu um þjóðkirkju á Íslandi, eins og stjórnlagaráð leggur til. Í þjóðaratkvæðagreiðslu um slíka tillögu að stjórnarskrá væri að sjálfsögðu ekki verið að kjósa um þjóðkirkjuna sérstaklega. Það er hins vegar stjórnarskrárvarinn réttur þjóðarinnar sjálfrar að ákveða hvort þjóðkirkja skuli afnumin úr stjórnarskrá eða ekki", segir Pétur Hafstein m.a. í grein sinni sem lesa má í heild í blaðinu í dag.