Deilt um starfsréttindi Gunnars

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins. Ljósmynd/Ragnar Th. Sigurðsson

Skúli Bjarnason, lögmaður Gunnars Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins (FME), hefur óskað eftir því við Oddnýju Harðardóttur fjármálaráðherra að hún úrskurði um starfsréttindi Gunnars. Er óskað eftir því að ráðherra taki af öll tvímæli um að staða Gunnars sem forstjóri FME falli undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins og hann njóti þeirrar verndar sem þau veita.

Beiðnin kemur í framhaldi af því að stjórn FME segir í bréfi sem sent var lögmanninum að hún telji embætti forstjóra FME ekki falla undir ákvæði fyrrgreindra laga. Vísar stjórnin þar til þess að í lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi sé kveðið á um að forstjórinn skuli ráðinn af stjórn. Í lögskýringargögnum sé ákvæðið skýrt þannig að til að undirstrika faglegt sjálfstæði stofnunarinnar þyki rétt að forstjórinn sé ráðinn af stjórn og beri ábyrgð gagnvart henni. Því sé litið svo á að forstjórinn sé ekki embættismaður í skilningi laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Segir stjórnin að þrátt fyrir lagabreytingu sem kvað á um að kjararáð ákveði laun forstjórans hafi ekki orðið eðlisbreyting á starfi hans.

Hefur Skúli upplýst stjórn FME um að óskað hafi verið eftir úrskurði ráðherra. Hann telji því að andmælafrestur Gunnars byrji ekki að líða fyrr en búið er að úrskurða í málinu og borist hafi að öðru leyti fullnægjandi gögn og skýringar stjórnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert