Útbelgdur utanríkisráðherra

Jón Bjarnason, fyrrverandi landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra, segir á bloggi sínu að utanríkisráðherra fari mikinn í ESB-umræðunni og skýli sér nú á bak við „villikettina“ í VG. Hann segir hann ræða um ESB-umsóknina í brandarastíl til að breiða yfir hversu lítill hann sé í klóm ESB-risans.

„Allt tal um að einstakir ráðherrar hafi tafið þá vinnu sýnir best veruleikafirringu þeirra sem slíku halda fram. Staðreyndin er nefnilega sú að Evrópusambandið ræður alfarið ferð, bæði hvað varðar hraða og verklag í ESB-viðræðunum.  Íslendingar hafa lagt fram sinn hluta í svokallaðri rýnivinnu, þ.e. samanburði á lögum og reglum Íslands og ESB og nú metur ESB á hvaða hraða Ísland getur aðlagast regluverki ESB,“ skrifar Jón.

Hann segir ekkert liggja fyrir um hvenær erfiðu kaflarnir í samningaviðræðunum um aðild Íslands að ESB verða opnaðir, þ. á m. sjávarútvegsmál, landbúnaðarmál og umhverfismál. 

„Hinsvegar er það rétt að ég sem ráðherra neitaði að gefa eftir fyrirfram ýmsa grundvallarhagsmuni Íslendinga og hafnaði fyrirfram aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að ESB,“ skrifar Jón.

Þægir ESB-húskettir

„Utanríkisráðherra belgir sig nú út í fjölmiðlum á Íslandi og ræðir um ESB-umsóknina í brandarastíl eða eins og skemmtiefni á þorrablóti. En slíkur leikaraskapur er aðeins til að breiða yfir hversu lítill kall hann og aðrir íslenskir ESB-sinnaðir ráðherrar eru höndunum á ESB-risanum.“

„Össur og aðrir íslenskir ESB-ráðherrar mala þýðlega, sleikja útum og milli eyrna, eins og þægum húsköttum ber, og nuddar mjúkum feldinum um bera fætur ESB-stjúpunnar. Og hann, eins og aðrir góðir húskettir, uppsker strokur og klapp á kollinn og smá mjólkurdreitil á IPA-styrkja skálina sína.“

„En alvarleikinn er hins vegar sá, að í nýju áliti utanríkismálanefndar ESB-þingsins frá 7. febrúar sl. er húsköttunum hælt fyrir hvað þeir hafa gert vel eins og t.d. við uppstokkunina á íslensku ríkisstjórninni um síðustu áramót og hinsvegar minntir á hverju þeir þurfa að hraða eins og að aðlaga stjórnsýslu íslensks landbúnaðar og sjávarútvegs að kröfum ESB.

Samkvæmt áðurnefndu áliti utanríkismálanefndar ESB er hin breytta ríkisstjórn nú, eins og góðum húsköttum sæmir, mun leiðitamari ESB en sú sem áður satOg heimiliskettir ESB í ríkisstjórn sleikja feld sinn og mala,“ skrifar Jón.

Bloggsíða Jóns Bjarnasonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka