Samtök ferðaþjónustunnar skora á stjórnvöld að lækka álögur ríkisins á eldsneyti og styðja þannig við bakið á atvinnugreininni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum.
„Samtök ferðaþjónustunnar skora enn einu sinni á ríkisstjórnina að lækka álögur hins opinbera á eldsneyti en ríkissjóður tekur nú til sín um helming útsöluverðs á dísilolíu í formi skatta eða um 125 krónur af hverjum seldum lítra.
Hópbifreiðar á landinu nota 12 milljón lítra af olíu á ári sem kosta nú á ársgrundvelli 3 milljarða króna. Ríkið fær til sín u.þ.b. 1.500 milljónir af þeirri upphæð og hefur það aukist um 300 milljónir á milli ára sem er aukning um 25% á einu ári.
Jeppabifreiðar, vélsleðar, bátar og fleiri farartæki, sem notuð eru í ferðaþjónustu, búa við sömu hækkanir.
Á síðastliðnu sumri fækkaði ferðum Íslendinga um landið, sérstaklega á þeim svæðum sem eru lengst frá stærstu markaðssvæðum s.s. höfuðborgarsvæðinu. Útlitið er því ekki bjart fyrir ferðaþjónustufyrirtækin víðs vegar um landið sem helst þjóna Íslendingum.
Lækkun á álögum ríkisins myndi létta undir með ferðaþjónustufyrirtækjunum um land allt og stuðla að auknum ferðum fólks um landið,“ segir í tilkynningu.