Brosti og hvatti fólk áfram

Tveir lögreglumenn sem störfuðu við Austurvöll í mótmælunum í janúar 2009 segjast hafa séð Álfheiði Ingadóttur, þingmann Vinstri grænna, brosa og veifa til mótmælendanna og hafi það verið þeirra upplifun að hún hafi verið að hvetja þá til dáða.

„Ég stóð á milli nýja hússins og gamla Alþingishússins, Austurvallarmegin,“ segir annar lögreglumaðurinn. „Svo sé ég að fólk er farið að æpa og góla og veifa höndum og það horfir upp. Ég sný mér þá við og sé Álfheiði Ingadóttur standa á brúnni milli bygginganna og hún veifar höndum eins og hún sé að hvetja fólk til dáða,“ segir hann. „Ég var hneykslaður á þessu því það var búið að ræða við þingmennina um að þeir létu ekki sjá sig þarna en það voru sumir sem sinntu því ekki, sérstaklega hún.“

Fólkið espaðist skyndilega

Hann segist ekki hafa orðið var við að aðrir þingmenn væru að hvetja mótmælendur enda sneri hann baki í þinghúsið. Eina ástæðan fyrir því að hann hafi séð Álfheiði var sú að honum fannst fólkið skyndilegast espast upp og því hafi hann litið við.

Hinn lögreglumaðurinn var staðsettur á bak við þinghúsið, á stéttinni í bakgarði viðbyggingarinnar, þar sem þeim mótmælendum var haldið sem létu hvað ófriðlegast, að mati lögreglunnar. „Þarna sá maður upp á glerbrúna á milli bygginganna og þingmennirnir gengu fram og til baka, hver á fætur öðrum. Sumir dokuðu við en aðrir héldu ótrauðir áfram. Álfheiður og Steingrímur [J. Sigfússon, efnahagsráðherra og formaður VG, innsk. blm.] stoppuðu þarna, Steingrímur gerði ekkert annað en að brosa út en Álfheiður stoppaði. Maður tók eftir því og varð hverft við,“ segir hann. „Maður upplifði það, hvort sem það hafi verið hennar hugsun, að hún væri að hvetja fólk því hún stendur þarna, brosir og lyftir síðan upp höndum, sem mætti kalla hvatningarhreyfingar,“ bætir hann við.

Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn sagði í viðtali við mbl.is um helgina að þingmenn hefðu haft áhrif á mótmælin við Austurvöll í janúar 2009, í búsáhaldabyltingunni svokölluðu. Nefndi hann engin nöfn. Þingmenn hafi orðið vitni að þessu, auk þess sem það hafi verið upplifun lögreglumanna. Geir Jón vinnur að skýrslu um aðgerðir lögreglunnar í tengslum við mótmælin eftir hrun og ráðgerir að skila henni til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu í vor.

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði á Alþingi í gær að á meðan mótmælin stóðu sem hæst hefði ónefndur þingmaður gert athugasemdir við störf lögreglu. Jón hefði spurt hvort honum væri sama þótt mótmælendur kæmu inn í þinghúsið, brytu allt og brömluðu. Á þingmaðurinn að hafa svarað: „Er það ekki í lagi, eru þetta ekki dauðir hlutir?“ Jón viðurkenndi í samtali við mbl.is að hann hefði átt við Álfheiði Ingadóttur. Á meðan hann var í pontu kallaði hún til hans að hætta þessum lygum. Komið hefur fram að nafn Álfheiðar komi hvergi fram í málaskrá lögreglu í tengslum við skýrsluna sem Geir Jón er að taka saman. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka