„Hvað segja opinberar tölur um opinber umsvif? Hefur hlutur ríkis og sveitarfélaga minnkað mikið á síðustu áratugum?", spyr Eyþór Arnalds, frkvstj. og bæjarfulltrúi, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir Eyþór m.a. að í dag séu umsvif ríkis- og sveitarfélaga meira en 50% af þjóðarframleiðslu. Þó er ótalin bein og óbein eign í bönkum og fyrirtækjum. Ef marka má umræðuna um frjálshyggju síðustu ára og áratuga ætti þessi hlutdeild að hafa skroppið saman og hafa þá jafnframt verið miklu stærri hér áður fyrr, segir Eyþór en tölurnar sýna allt annan sannleik.
„Skuldavandi ríkissjóða stafar einmitt af því að ríkið og sveitarfélög hafa aukið umsvif sín og skuldbindingar gríðarlega. Á sama tíma og þessi þróun á sér stað fjölgar þeim ört sem komast á lífeyrisaldur. Hvernig sem menn vinna úr þeim vanda er mikilvægt að halda því til haga sem rétt er. Umsvif hins opinbera hafa vaxið stórlega en ekki minnkað", segir Eyþór.
Með greininni fylgir línurit sem sýnir þróun útgjalda ríkisins og hins opinbera í heild, en samkvæmt því hafa þau vaxið verulega frá miðri síðustu öld. Gögnin sem byggt er á eru frá Datamarket og grein Eyþórs má lesa í heild í blaðinu í dag.