Forsetar „rjúka ekki til“

Ólafur Ragnar Grímsson veitir undirskriftalistanum viðtöku á Bessastöðum á mánudaginn …
Ólafur Ragnar Grímsson veitir undirskriftalistanum viðtöku á Bessastöðum á mánudaginn var. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hefur aldrei gerst í sögu forsetaembættisins að menn rjúki til í janúar eða febrúar og tilkynni að þeir ætli að gefa kost á sér og fari svo að safna stuðningi á eftir,“ segir Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, og vísar á bug fullyrðingum að hann hafi dregið fram úr hófi að gera grein fyrir því hvort hann sækist eftir endurkjöri.

Forsetinn ræddi framgöngu fyrri forseta hvað þetta varðar á blaðamannafundinum á Bessastöðum á mánudaginn. Hann gagnrýndi fræðimenn fyrir óvandaðar sögulegar skírskotanir og hvernig fjölmiðlar hefðu kynt undir getgátur um að forsetinn væri ef til vill ekki að fara að hætta, líkt og hann hefði tekið fram skýrt og greinilega í nýársávarpinu.

Var skýr yfirlýsing

„Eins og ég hef nú sagt alloft hér á þessum fundi og get sagt einu sinni enn að þá tel ég að nýársávarp mitt hafi verið mjög skýr yfirlýsing. Sú niðurstaða var hins vegar ekki virt af tvennum ástæðum.

Annars vegar vegna þess að í fjölmiðlum hófst þessi umfjöllun um það hvað ég hefði í raun og veru áttu við. En kannski líka vegna þess að verulegur hluti þjóðarinnar - við getum deilt um það hvað hann er stór eða lítill, eins og birtist hér í dag - vildi ekki sætta sig við þá ákvörðun og tók saman höndum og hóf samræður sín á milli til þess að þrýsta á mig að gera annað en ég hafði tilkynnt.“

Hlaupa ekki til og tilkynna framboð

Forsetinn segir engin fordæmi fyrir því að sitjandi forsetar tilkynni hvort þeir ætli að halda áfram í janúar eða febrúar heldur kanni þeir baklandið með vorinu.

„Varðandi tímann að þá sýnir nú sagan að menn hafa ekki verið að gera það upp við sig í janúar- eða febrúarmánuði eða tilkynna það hvort að þeir gæfu kost á sér til forsetakjörs, vegna þess að gefur enginn heilvita maður kost á sér til forsetakjörs nema hann eða hún hafi fundið vikum eða mánuðum saman vaxandi þunga stuðningsöldu frá fólkinu í landinu, eins og Vigdís hefur lýst ágætlega hvað knúði hana til framboðs á sínum tíma.“

Vaxandi þungi stuðningsöldu 

Forsetinn heldur áfram.

„Ég þekki mjög vel aðdragandann að framboði Kristjáns Eldjárns - vegna þess að ég fylgdist náið með því á sínum tíma - það var aðeins sá mikli þungi stuðnings, mánuðum saman, upp úr áramótunum, sem leiddi til þess að Kristján Eldjárn gaf að lokum kost á sér.

Það hefur aldrei gerst í sögu forsetaembættisins að menn rjúki til í janúar eða febrúar og tilkynni að þeir ætli að gefa kost á sér og fari svo að safna stuðningi á eftir. Það hefur aldrei gerst. Menn hafa eingöngu verið bornir fram af fólkinu í landinu og það er kannski eðlilegt að hin ungar kynslóðir fjölmiðlafólks átti sig ekki á því ferli.

En við sem að munum þessar kosningar og höfum staðið í þeim sjálf berum hins vegar mikla virðingu fyrir þessum lýðræðislega vilja. Og bæði af hálfu Kristjáns og Vigdísar og mín var það alveg ljóst að engin okkar gaf kost á sér til embættis forseta Íslands nema vegna þessa þunga sem við fundum fyrir vikum og mánuðum saman.“

Vindar samstöðunnar

- Hvernig mælirðu þennan þunga?

„Það er nú út af fyrir sig engin ákveðin mælistika á því. En sá sem eða þeir einstaklingar sem að valdir eru af hálfu þjóðarinnar til að gegna slíkum trúnaðarstöðum hafa auðvitað ákveðinn skilji á vilja fólksins í landinu. Það birtist með samtölum. Það birtist með bréfum og birtist með umfjöllun í fjölmiðlum. Það er svona samansafn af því sem maður finnur fyrir og smátt og smátt verður að svona ákveðinni vitund og ákveðnum vilja. Það er engin formúla til um það.“

En þeir sem hafa verið á vettvangi lýðræðisins lengi auðvitað finna fyrir glögglega hvernig þeir vindar blása,“ sagði Ólafur Ragnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert