Senda út greiðsluseðla

Lýsing ætlar að senda viðskiptavinum sínum greiðsluseðla vegna endurreiknaðra samninga þrátt fyrir dóm Hæstaréttar um vexti á gengislánum. Hið sama gera Íslandsbanki og Landsbanki.

Á vef Lýsingar kemur fram að unnið sé að því meta áhrif dóms Hæstaréttar og verða viðskiptavinir upplýstir síðar hvort og þá hvaða áhrif Lýsing telur dóminn hafa á endurreiknaða samninga félagsins.

Íslandsbanki mun senda greiðsluseðla út með óbreyttu sniði á meðan farið er yfir niðurstöðu og mögulegt fordæmisgildi nýfallins hæstaréttardóms.

Þegar þeirri yfirferð er lokið og fyrir liggur til hvaða lána dómurinn tekur og hvernig skuli reikna þau verða lánin endurreiknuð. Leiði slíkur endurreikningur til lækkunar á skuldum viðskiptamanna mun bankinn að sjálfsögðu taka tillit til þess og endurgreiða það sem var ofgreitt eftir að dómurinn féll, að því er segir á vef Íslandsbanka.

Landsbankinn mun að óbreyttu halda áfram að senda viðskiptavinum sínum greiðsluseðla vegna lána sem hafa verið endurreiknuð.

Landsbankinn vill samt sem áður ítreka að viðskiptavinir bankans munu ávallt  njóta betri réttar komi til þess að endurreikna þurfi lán þeirra á ný, segir á vef Landsbankans.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka