Skoða tengsl kæfisvefns og Alzheimer

Heilbrigt heilahvel (t.h.) og heilahvel úr alzheimersjúklingi.
Heilbrigt heilahvel (t.h.) og heilahvel úr alzheimersjúklingi. reuters

Rannsókn sem gerð var hér á landi fyrir rúmu ári sýndi fram á að kæfisvefn væri algengari hjá þeim sem eru með Alzheimers-sjúkdóminn. Núna er komin í gang stærri rannsókn, í samstarfi við svefnrannsóknastofu Landspítalans, þar sem skoða á betur hvort og þá hvaða tengsl geti verið þarna á milli.

Jón Snædal, yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum, segir að lengi hafi verið uppi grunsemdir um tengsl á milli þessara sjúkdóma. Mikilvægt sé að skoða þetta nánar og m.a. hvort sjúklingum með kæfisvefn sé hættara við að fá Alzheimer síðar á ævinni.

Mörg þúsund Íslendingar hafa verið greindir með þessa sjúkdóma og þeim hefur verið að fjölga á seinni árum. Þannig eru um 3.000 manns með Alzheimer, flestir í hópi aldraðra en talið er að um 20% fólks eldra en 80 ára séu með sjúkdóminn. Álíka margir sjúklingar eru með kæfisvefn, eða um 3.000 í dag, en frá árinu 1987 hafa um 8.000 manns verið greindir með sjúkdóminn, sem herjar aðallega á fólk 40-60 ára. Er hann mun algengari meðal karla en kvenna.

Endurtekinn súrefnisskortur

Kæfisvefn lýsir sér þannig að fólk hættir að anda endurtekið þegar það sefur. Gerist þetta árum eða áratugum saman, getur það komið niður á starfsemi heilans sem endurtekinn súrefnisskortur. „Við vitum það af ýmsu öðru að súrefnisskortur kemur gjarnan niður á minni fólks. Síðan er annað mál hvort fólk, sem er með ógreindan kæfisvefn lengi, sé einnig með Alzheimer eða hvort það er allt annar sjúkdómur. Þetta viljum við skoða betur og þá hvort einhverjar Alzheimer-breytingar verða hjá fólki með kæfisvefn. Einnig ætlum við að halda áfram að skoða kæfisvefn hjá þeim sem eru með nýlega greindan Alzheimers-sjúkdóm,“ segir Jón Snædal.

Undir þetta tekur Þórarinn Gíslason, yfirlæknir lungnalækninga á Landspítalanum og sérfræðingur í rannsóknum á kæfisvefni. Hann leggur áherslu á að lítið sé vitað um hvort tengsl geti verið á milli þessara sjúkdóma og frekari rannsóknir þurfi að fara fram. Til þess séu mjög góðar aðstæður hér á landi, enda löng og góð reynsla af rannsóknum á kæfisvefni þar sem almenningur hafi jafnan verið reiðubúinn að leggja lið.

Meðalaldur fólks með kæfisvefn er um fimmtugt og Þórarinn segir að á þeim tíma séu fáir með Alzheimer. En hins vegar geti vissir hópar verið í hættu að fá síðar Alzheimer, þeir sem þjáist af miklum og endurteknum súrefnisskorti í svefni.

„Við höfum ekki orðið sérstaklega vör við að meðal kæfisvefnssjúklinga væri Alzheimer algengari en hjá öðrum. En við munum skoða þetta frá mörgum hliðum og þá hvort hluti fólks með kæfisvefn um fimmtugt, geti ómeðhöndlað fengið merki um vitsmunaleg glöp síðar á ævinni. Það gæti rétt eins verið að gerast að við Alzheimer verði breytingar á heilavef sem stuðli að því að stjórn öndunar laskist og kæfisvefnseinkenni komi fram. Þarna er um tvo algenga sjúkdóma að ræða og óvíst hvort þarna sé orsakasamband á milli, en þetta viljum við skoða með opnum huga,“ segir Þórarinn og telur spennandi viðfangsefni að fá fram hvort tengslin séu til staðar. Verði það raunin þá hafi það verulega þýðingu fyrir lýðheilsu hluta þjóðarinnar og gæfi möguleika á fyrirbyggjandi meðhöndlun.

Jón Snædal, yfirlæknir á Landspítalanum og sérfræðingur í öldrunarlækningum, er meðal fyrirlesara á opnum fræðslufundi um Alzheimers-sjúkdóminn sem Lionshreyfingin stendur fyrir í dag í húsi Blindrafélagsins, Hamrahlíð 17. Fundurinn er haldinn í minningu Þórunnar Gestsdóttur og fer fram frá kl. 16.30 til 18.30. Aðgangur er ókeypis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert