Gunnar Þ. Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, hefur réttarstöðu sem embættismaður ríkisins að mati Oddnýjar G. Harðardóttur fjármálaráðherra. Þetta kemur fram í bréfi sem hún sendi lögmanni Gunnars, Skúla Bjarnasyni, í dag.
Gunnar hafði krafðist þess að fjármálaráðherra úrskurðaði um réttarstöðu hans þannig að enginn vafi myndi leika á því hvort hann félli undir lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, vegna fyrirhugaðrar uppsagnar hans.
Í svarbréfi fjármálaráðherra segir að fyrst embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins var birt í Lögbirtingablaðinu við stofnun eftirlitsins, falli embætti forstjórans undir starfsmannalög ríkisins.
„Það er ekki tilefni til að fara í sérstakan úrskurð, á því liggur enginn vafi að ekki sé ástæða fyrir ráðuneytið að úrskurða sérstaklega í málinu, þar sem það hafi þegar birt embætti forstjóra Fjármálaeftirlitsins á forstöðumannalistanum,“ sagði Skúli í samtali við mbl.is.
„Raunverulega niðurstaðan er enn skýrari en ef það hefði verið kveðinn upp úrskurður,“ sagði Skúli. „Á þessu leikur bara enginn vafi. Það er ekki flóknara en það.“