Síðari umræða um tillögu Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, um afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, fer fram á Alþingi í dag.
Þingfundur hefst kl. 15 með umræðum um störf þingsins, en síðan verður tillaga Bjarna tekin til umræðu.
Meirihluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar leggur til að tillögunni verði vísað frá og til vara að tillagan verði felld. Mörður Árnason gerir fyrirvara við málið hvað varðar tímasetningu og túlkun þingskapa og Magnús M. Norðdahl er samþykkur niðurstöðu og tillögu meirihluta nefndarinnar en kýs að færa ítarlegri rök fyrir afstöðu sinni í sérstöku nefndaráliti.
Nefndarálit fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í nefndinni hafa enn ekki verið lögð fram.