Dæmdur í ársfangelsi fyrir umboðssvik

Orkuveita Reykjavíkur.
Orkuveita Reykjavíkur. mbl.is/Hjörtur

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt fyrrverandi garðyrkjustjóra Orkuveitu Reykjavíkur í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir umboðssvik.

Sérstakur saksóknari gaf út ákæru á hendur manninum fyrir að hafa á tímabilinu 2003-2008 gefið út reikninga fyrir hönd Orkuveitunnar og látið fyrirtækið greiða laun tveggja starfsmanna Garðyrkjufélags Reykjavíkur. Annar fékk samtals um 11 milljónir í laun en hinn 14 milljónir. Maðurinn var fram til 2007 formaður félagsins samhliða störfum fyrir Orkuveituna.

Garðyrkjustjórinn hélt því fram að greiðslunnar hefðu verið styrkir Orkuveitunnar til Garðyrkjufélagsins, en fyrirtækið hefði um langt skeið átt í nánu samstarfi við félagið og styrkt það með ýmsum hætti.

Starfsmenn Garðyrkjufélagsins sögðu fyrir dómi að það hefði verið almenn vitneskja hjá félaginu að Orkuveitan greiddi laun framkvæmdastjóra félagsins. Garðyrkjustjórinn fyrrverandi hélt því einnig fram að vitneskja hefði verið um þetta hjá Orkuveitunni. Þegar nýr formaður var kosinn hjá Garðyrkjufélaginu árið 2007 ræddi hann við garðyrkjustjórann um að honum þætti þetta fyrirkomulag „óþægilegt“ og spurði hvort hægt væri að koma þessum málum fyrir með öðrum hætti.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að fyrir liggi að garðyrkjustjórinn lét framkvæmdastjóra Garðyrkjufélagsins útbúa reikningana og sagði fyrir um hvernig þeir ættu að hljóða. Þá kom hann því til leiðar að Orkuveitan greiddi reikningana. Dómarinn hafnar rökum hans fyrir því að hann hafi haft heimild til að gera þetta.

„Hvorki yfirmenn ákærða hjá fyrirtækinu, æðstu stjórnendur þess né borgarstjóri hafa tekið það í mál að ákærði hafi haft heimild til þess að styrkja Garðyrkjufélagið með þessum hætti. Ber stjórnendum saman um það að það hafi ekki verið á valdi deildarstjóra fyrirtækisins að ákveða slíkt heldur stjórnarinnar. Álítur dómurinn að það hefði verið í hæsta máta óeðlilegt að deildarstjórar hefðu slíka heimild. Með vísan til þessara atriða allra ber að hafna þeirri viðbáru ákærða að hann hafi haft heimild til þess að veita félaginu þessa styrki. Ákærði hafði ekki fjárreiður fyrir Orkuveituna en gat stöðu sinnar vegna komið því til leiðar að fyrirtækið greiddi umrædda reikninga árin 2003 til og með 2008. Telst hann með þessu athæfi í heild hafa misnotað aðstöðu sína sem deildarstjóri garðyrkjudeildar Orkuveitu Reykjavíkur, gerst með því sekur um umboðssvik og brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert