„Ég er orðinn öreigi“

Herbert Guðmundsson, tónlistarmaður.
Herbert Guðmundsson, tónlistarmaður. mbl.is/Friðrik Tryggvason

„Þetta þýðir náttúrulega bara að ég er orðinn öreigi, það er bara þannig. Mér skilst að þetta sé á áttundu milljón sem ég eigi að borga með dráttarvöxtum og öllu,“ segir Herbert Guðmundsson tónlistarmaður en eins og mbl.is sagði frá fyrr í dag hefur Hæstiréttur staðfest dóm héraðsdóms um að honum og eiginkonu hans beri að greiða 3,6 milljónir króna vegna vangoldinna hússjóðsgjalda.

Forsaga málsins er sú í stuttu máli að ákveðið var að stofna húsfélag fyrir raðhúsalengju í Breiðholti og innheimta í kjölfarið húsfélagsgjöld en eitt húsanna var í eigu Herberts. Tilgangurinn var einkum sá að standa straum af kostnaði við að gera við þök húsanna en Herbert hafði þegar látið gera við þakið á sínu húsi nokkrum árum áður á eigin kostnað.

„Þetta er lokadómur í Hæstarétti Íslands,“ segir Herbert um niðurstöðuna. „Þetta er búið, nú er ég búinn að tapa öllu sem ég á og er bara voðalega ánægður eiginlega, bara hamingjusamur, glaður og frjáls. Nú get ég bara byrjað upp á nýtt, laus við þennan draug og þessa ósanngirni sem þarna er í gangi og var í gangi.“

Herbert segir að allt sé nú farið vegna málsins. Hjónabandið, húsið og nú eigi hann ekki neitt eftir. „Þannig að ég bara óska þeim alls hins besta, þessu fólki þarna í lengjunni. Þetta er bara nýtt upphaf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert