Jarðskjálftahrinan sem hófst suðaustan við Helgafell um kl. 1 í nótt virðist hafa fjarað út. Stærsti skjálftinn var 4,2 og í kjölfarið kom annar um 3,6. Upptök skjálftana eru aðeins um 10 kílómetra frá byggð á höfuðborgarsvæðinu.
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að kl 01:03 hafi orðið jarðskjálfti, af stærð 4,2, suðaustan við Helgafell, sunnan Hafnarfjarðar. Annar sem var 3,6 að stærð varð hálftíma fyrr á sama svæði. Báðir skjálftarnir fundust víða á höfuðborgarsvæðinu og sá stærri einnig á Akranesi. Skjálftarnir voru grunnir, á 3-4 kílómetra dýpi.
Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni í morgun fylgdu nokkrir eftirskjálftar í kjölfarið. Um fjórir smáskjálftar hafi verið í nótt, en tiltölulega kyrrt sé nú orðið á svæðinu.
Helgafell er á þekktu jarðskjálftasvæði, en lítið hefur þó verið um skjálfta þar síðustu ár.
Upptök skjálftans eru rétt við Grindarskörð. Þaðan eru aðeins um 10 km í næstu byggð á Völlum í Hafnarfirði og í byggðina við Elliðaárvatn.
Áður en jarðskjálftinn reið yfir í nótt varð jarðskjálfti á Norðurlandi. Upptökin voru 10 km norðvestur af Gjögurtá. Skjálftinn, sem kom laust eftir kl. 10, var um 3,6 að stærð. Hann fannst á Siglufirði, í Svarfaðardal og á Ólafsfirði.