Aðalsteinn Leifsson, formaður stjórnar Fjármálaeftirlitsins, segir að Gunnar Andersen, forstjóri FME, hafi verið kærður til lögreglu en ábendingar hafi borist um að hann kunni að hafa brotið af sér í starfi með því að afla sér upplýsinga úr bankakerfinu án heimildar.
Aðalsteinn segir hins vegar að aðalástæða uppsagnarinnar sé sú að forsendur fyrir því að Gunnar geti gegnt starfinu hafi breyst þar sem á hæfi hans skortir. Þetta verður rakið til fortíðar hans sem eins af framkvæmdastjórum Landsbanka Íslands.
Gunnar er grunaður um að hafa aflað sér trúnaðarupplýsinga úr bankakerfinu með ólögmætum hætti og Aðalsteinn segir að upplýsingarnar hafi verið staðfestar með þeim hætti að ekki hafi verið hægt annað en að láta hann hætta störfum nú þegar og kæra málið til lögreglu. Um sé að ræða brot í starfi frá því hann tók við starfi forstjóra FME en stjórnin vildi ekki gefa upp á blaðamannafundi í dag hvenær viðkomandi brot hefði átt sér stað.
Stjórn FME kærði málið til lögreglu í morgun og Gunnar hætti störfum þegar í stað.
Stjórnin segir að ummæli fjármálaráðherra, Oddnýjar G. Harðardóttur, um að Gunnar sé opinber starfsmaður breyti ekki afstöðu stjórnarinnar. Þetta kom fram á blaðamannafundi með stjórn FME.
Gunnar var við vinnu í gær en Aðalsteinn fór með uppsagnarbréfið á heimili Gunnars í morgun og afhenti honum. Hann hafði jafnframt samband við efnahags- og viðskiptaráðherra í morgun og greindi honum frá niðurstöðu stjórnar FME.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, stjórnarmaður í FME, segir að þrátt fyrir að þetta mál hafi komið upp í gær, að hann hafi brotið af sér í starfi með því að afla trúnaðarupplýsinga úr bankakerfinu, þá hefði Gunnari verið sagt upp þar sem hann skorti hæfi til að gegna starfinu. Hins vegar hafi meint brot gert það að verkum að ekki kom til greina að hann starfi út uppsagnartímann sem er sex mánuðir.
Þau Ingibjörg og Aðalsteinn segja að Gunnar hefði aldrei verið ráðinn forstjóri FME ef þær upplýsingar sem komið hafa í ljós varðandi störf hans hjá Landsbankanum hefðu verið kunnar á þeim tíma sem hann var ráðinn til FME.
Aðalsteinn segir að Gunnar hafi veitt rangar og villandi upplýsingar um aflandsfélög Landsbankans þegar hann var ráðinn til FME.