Hefur mátt þola óbilgjarna umræðu

Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.
Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs. Brynjar Gauti

Starfslokasamningur við Guðrúnu Pálsdóttur, fyrrverandi bæjarstjóra, grundvallast á þeim ráðningarsamningi sem fyrrverandi meirihluti gerði. „Ég taldi það skyldu mína að bærinn næði sátt við Guðrúnu Pálsdóttur sem á að baki 25 ára farsælan starfsferil hjá sveitarfélaginu,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs.

„Hún hafði mátt þola óbilgjarna umræðu en nú hefur náðst góð sátt um að hún haldi áfram störfum hjá bænum,“ segir Ármann í yfirlýsingu sem send var mbl.is.

Ármann segir að í ráðningarsamningi Guðrúnar Pálsdóttur segi að laun bæjarstjóra taki sömu breytingum og þingfararkaup og þar sem kjararáð úrskurðaði um hækkun frá 1. október bar að hækka laun hennar. Lögfræðiálit um launakjör hennar var unnið í tíð fyrrverandi meirihluta. Það var andsvar við sjónarmiðum lögmanns Guðrúnar Pálsdóttur sem fyrrverandi meirihluti hafði ákveðið að segja upp störfum og verður því að skoða í því ljósi.

Hluti af samkomulaginu felur í sér útgreiðslu ótekins orlofs, samkvæmt tímaskráningarkerfi bæjarins. Meginreglan er sú að ótekið orlof er ekki greitt út en fordæmi eru fyrir slíku við sérstakar aðstæður og þær voru svo sannarlega uppi í þessu máli.

„Gagnrýni minnihlutans í bæjarstjórn á samkomulag við fyrrverandi bæjarstjóra kemur úr hörðustu átt. Til alls þessa var stofnað af þeirra hálfu. Þau bera ábyrgð á ráðningarsamningi og uppsögn bæjarstjóra. Það var núverandi meirihluta að greiða úr þeim flækjum og er ég ánægður með að það skuli hafa tekist í sátt við Guðrúnu Pálsdóttur,“ segir Ármann í yfirlýsingu sinni.

Guðrún Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.
Guðrún Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri Kópavogs.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka