Með víðtæka reynslu úr stjórnsýslunni

Unnur Gunnarsdóttir, nýr forstjóri FME, Aðalsteinn Leifsson, Ingibjörg Þorsteinsdóttir og …
Unnur Gunnarsdóttir, nýr forstjóri FME, Aðalsteinn Leifsson, Ingibjörg Þorsteinsdóttir og Halldór S. Magnússon, sem situr í varastjórn FME mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Unnur Gunnarsdóttir, yfirlögfræðingur Fjármálaeftirlitsins, hefur tekið við forstjórastarfi FME tímabundið. Samkvæmt upplýsingum sem fram komu á blaðamannafundi hjá FME í dag verður staðan auglýst síðar en ekki liggur fyrir hvenær það verður.

Unnur kom til starfa hjá Fjármálaeftirlitinu í ágúst 2010 en hún er með víðtæka reynslu úr stjórnsýslunni. Hún starfaði sem lögfræðingur hjá bankaeftirliti Seðlabankans í sjö ár en hætti störfum þar árið 1995.

Þaðan fór hún til starfa hjá skrifstofu EFTA í Brussel þar sem hún vann meðal annars við að skrifa kaflann um fjármálaþjónustu í viðaukakafla EES-samningsins í fimm ár. Þaðan kom hún heim til Íslands og vann sem lögfræðingur á lögmannsstofu í tvö ár en tók síðan við starfi skrifstofustjóra í samgönguráðuneytinu og var þar í sjö ár.

Unnur segir að síðasta árið áður en hún kom til starfa hjá FME árið 2010 hafi hún verið settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur.

Aðspurð segist Unnur aldrei hafa starfað í viðskiptabanka en hún hafi sem lögfræðingur unnið fyrir Fjörgreiðslumiðlun um tíma.

Hún segir engar kjöraðstæður ríkja nú til þess að taka við starfi forstjóra FME en hún hafi fundið það á þeim óvissutímum sem ríkt hafi hjá stofnuninni undanfarnar vikur að hún hefði stuðning starfsfólks með sér. Því hafi hún treyst sér til þess þegar hún var með skömmum fyrirvara beðin að taka starfið að sér.

Unnur segist efast um að hún muni sækja um starf forstjóra þegar það verður auglýst en ómögulegt sé að segja til um það nú. „Mér líkar ágætlega að vera aðallögfræðingur Fjármálaeftirlitsins,“ segir Unnur í samtali við mbl.is.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert