Óbreytt stefna ekki valkostur

Frá fundi Alþingis í dag.
Frá fundi Alþingis í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Steingrímur J. Sigfússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á Alþingi í dag að þó að krónan yrði einn af valkostum í gjaldeyrismálum til framtíðarinnar gætum við ekki hagað efnahagsmálum með óbreyttum hætti.

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður hóf umræðu um framtíð gjaldeyrismála og sagði að undarlega lítið hefði verið rætt um þetta mikilvæga mál þó að allir hefðu sagt haustið 2008 að eitthvað yrði að gera í gjaldeyrismálum. Óbreytt ástand gengi ekki. Guðmundur sagði að að flestir flokkar á Alþingi hefðu mjög óljósa stefnu í gjaldeyrismálum og þá skorti framtíðarsýn.

Guðmundur sagði að krónan væri sökkvandi gjaldmiðill og hann stuðlaði að óstöðugleika í efnahagslífinu. Hann sagði að talsmenn krónunnar gerðu mikið úr kostum þess að hafa sveigjanlegan gjaldmiðil því það styrkti úrflutningsatvinnuvegina. Hann benti hins vegar á að okkar helstu útflutningsatvinnuvegir, sjávarútvegur og álframleiðsla, væru háðir takmörkunum. Það væri kvóti í sjávarútvegi og framleiðsla á áli ykist ekki þó að krónan félli. Hugverkaiðnaðurinn þyrfti hins vegar á stöðugu gengi að halda til að geta þrifist.

Steingrímur sagði að á næstunni myndi Seðlabankinn birta viðamikla skýrslu um valkosti í gjaldeyrismálum. Hann ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að krónan yrði að vera einn af þeim valkostum sem menn myndu hafa í framtíðarstefnumótun í gjaldmiðlamálum. Annað væri ábyrgðarleysi. Hann sagði að Ísland yrði að stefna að því að uppfylla Maastricht-skilyrðin óháð því hvort við tækjum upp evru eða ekki. Ísland yrði að minnka skuldir sínar, ná niður verðbólgu og reka hallalausan ríkissjóð.

Steingrímur sagðist vera þeirrar skoðunar að það sem hefði farið úrskeiðis í efnahagsmálum þjóðarinnar væri ekki bara krónunni að kenna. Það væri hins vegar líka ljóst að við gætum ekki hagað málum með sama hætti í framtíðinni og við gerðum á árunum fyrir hrun. Varðandi breytta stefnu vísaði hann m.a. til greinar í Morgunblaðinu í dag sem fjallað er um svokölluð NVLF-markmið.

Ekki hægt að styðjast við verðbólgumarkmið

Illugi Gunnarsson alþingismaður sagði alveg ljóst að það væri ekki hægt að styðjast áfram við verðbólgumarkmið eins og gert var fyrir hrun. Slíkri stefnu fylgdi of mikil áhætta. Stefnan stuðlaði að því að fjármagn flæddi inn í landið og setti allt á hliðina eins og gerðist fyrir hrun. Hann sagðist ekki þar með vera að segja að upptaka evru væri lausnarorðið. Upptaka evru væri ekki kostnaðarlaus. Myntin væri verkfæri en það skipti máli hvernig á málum væri haldið.

Árni Páll Árnason, fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði að misvísandi skilaboð stjórnvalda í gjaldmiðilsmálum væru stórskaðleg. Erlendir ráðamenn furðuðu sig á stefnuleysi stjórnvalda. Mjög mikilvægt væri að stjórnvöld kæmu sér saman um framtíðarstefnu í gjaldmiðilsmálum, en hann sagði að besti kosturinn væri að taka upp evru.

Lilja Mósesdóttir alþingismaður sagði að við yrðum að skipta um gjaldmiðil. Hún mælti með því að tekin yrði upp ný króna með mismunandi skiptigengi. Hún sagði að blind trú á evru hefði tafið fyrir ákvörðunum í gjaldmiðlamálum.

Pétur H. Blöndal alþingismaður sagði að það sem skipti máli væri agi í efnahagsmálum, en ekki hver gjaldmiðillinn væri. Skapa þyrfti grundvöll í gjaldeyrismálum með sparnaði og aga. Hann sagði að sjávarútvegur, áliðnaður, landbúnaður og ferðaþjónustu hefðu blómstrað vegna þess að verðgildi krónunnar hefði lækkað á árinu 2008. Án þessarar lækkunar væri hér miklu meira atvinnuleysi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert