Einar K. Guðfinnsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að atkvæðagreiðslan á Alþingi í morgun, þar sem samþykkt var að vísa frá þingsályktunartillögu um að afturkalla Landsdómsákæruna á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, hafi dregið fram „einkar ógeðfellda mynd af verklagi meirihluta Alþingis“.
Einar segir á heimasíðu sinni í dag að allt frá því að þingsályktunartillagan hafi verið lögð fram hafi bókstaflega allt verið reynt til þess að koma í veg fyrir að hún yrði tekin fyrir. Fyrst með tilraunum til þess að hindra að tillagan yrði yfir tekin á dagskrá þingsins.
„Þá var lögð fram frávísunartillaga, sem hafði þann tilgang að koma í veg fyrir að hún gæti fengið efnislega meðferð á Alþingi. Það mistókst. Því næst tók við afar sérkennilegur tími, þar sem áhrifafólk í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ætlaði að svæfa málið í nefndinni með ofbeldi og koma þannig í veg fyrir að Alþingi gæti afgreitt málið. Það gekk ekki,“ segir Einar.
Þá hafi komið að síðasta þætti málsins þar sem lögð hafi verið aftur fram frávísunartillaga til þess að koma í veg fyrir að þingmenn gætu tekið efnislega afstöðu til þingsályktunartillögunnar sjálfrar.
„Þetta var tæknilegt bragð til þess að koma í veg fyrir að alþingismenn fengju færi á því að taka efnislega afstöðu til tillögunnar um afturköllun ákærunnar. Þessi frávísunartillaga var lögð fram til þess að koma þeim þingmönnum og ráðherrum úr Samfylkingunni í skjól, sem greiddu á sínum tíma atkvæði gegn tillögum um ákæru á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum úr tveimur stjórnmálaflokkum; Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni. Þannig var reynt að forða þeim frá því að þurfa að svara eigin samvisku,“ segir Einar.