„Meirihluti Alþingis kom sér hjá því með klækjabrögðum að taka afstöðu til ákærunnar yfir Geir H. Haarde og vísaði tillögu minni frá,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag en samþykkt var fyrr í dag á Alþingi að vísa frá þingsályktunartillögu hans um að Landsdómsákæran á hendur Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, yrði afturkölluð.
Bjarni segir að fyrir liggi að ákæran styðjist ekki við þá meirihlutaskoðun þingmanna að hinn ákærði sé sekur og því sé málsmeðferðin fyrir landsdómi alvarlegt réttarhneyksli.
„Þingmenn sem áður sögðu ekkert tilefni til höfðunar málsins láta fram hjá sér fara tækifæri til að draga ákæruna til baka. Skömm þeirra er mikil en verður fullkomin þegar sýknudómur verður upp kveðinn,“ segir Bjarni.