Stjórn Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu lýsir yfir furðu sinni á seinagangi í úthlutun lóðar til byggingar mosku í Reykjavík, en 12 ár eru síðan umsókn um byggingu mosku var lögð fram.
Ung vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu stóðu í gærkvöldi fyrir opnum fundi um byggingu mosku á Íslandi. Fundurinn var fjölsóttur og umræður voru líflegar.
„Stjórn Ungra vinstri grænna á höfuðborgarsvæðinu, í kjölfar opins félagsfundar um byggingu mosku í Reykjavík, ályktar að trúfrelsi feli það í sér að allir skuli eiga jöfn tækifæri til að iðka trú sína. Ef að hið opinbera á yfirhöfuð að koma að úthlutun lóða fyrir trúarlegar byggingar þá verður að taka ákvarðanir um slíkt með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi án tillits til pólitískrar og trúarlegrar sannfæringar. Því ættu öll trúar- og lífsskoðunarfélög að fá sömu meðferð og stuðning við að reisa nauðsynlega aðstöðu fyrir starfsemi sína.
Stjórnin lýsir yfir furðu sinni á seinagangi í úthlutun lóðar til byggingu mosku, en sú umsókn er nú á 13. ári. Þessi töf er borginni til háborinnar skammar, og skýrist ekki öðruvísi en af algeru pólitísku sinnuleysi eða gagngerum fordómum innan stjórnsýslunnar. Umsóknir frá öðrum trúfélögum, sem sóttu um á svipuðum tíma eða mun síðar en FMÍ, hafa þegar fengið afgreiðslu og hlýtur það að vekja alvarlegar spurningar,“ segir í ályktun frá stjórn félagsins.