Formaður allsherjarnefndar Alþingis, Björgvin G. Sigurðsson, segist telja að banna eigi starfsemi mótorhjólagengja hér á landi sem tengjast skipulagðri glæpastarfsemi. Rætt var um málið á fundi nefndarinnar í morgun en gestir hans voru innanríkisráðherra, ríkislögreglustjóri og lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og lögreglustjórinn á Suðurnesjum.
Tvö til þrjú slík gengi eru með starfsemi hér á landi að sögn Björgvins og ellefu stuðningshópar þeirra og er talið að um 90 manns tengist þessari starfsemi.
„Við funduðum um skipulagða glæpastarfsemi og þá auðvitað að stórum hluta um tilkomu þessara mótorhjólagengja líka auðvitað. Við vorum annars vegar að fara yfir árangurinn af ársverkefni lögreglunnar og sérstakri fjárveitingu til teymis vegna skipulagðrar glæpastarfsemi og hins vegar hvað mætti bæta í og vantaði upp á til þess að halda þessu áfram. Það má kannski segja að við höfum verið að tengja aðkomu þingsins, stjórnvalda og lögreglunnar. Það var markmiðið með fundinum,“ segir Björgvin í samtali við mbl.is.
Hann segist hafa átt í góðum samræðum við Ögmund Jónasson innanríkisráðherra um það að undanförnu hvernig hægt sé að tengja þessa aðila saman og skapa þannig öflugt bakland fyrir starfsemi lögreglunnar gegn mótorhjólagengjunum.
Tekist að hamla gegn starfseminni
„Það kom í ljós að lögreglan telur árangurinn af starfinu mjög góðan. Þeir hafa náð að hamla verulega á móti þessu og telja sig þurfa áframhaldandi sérstaka fjárveitingu í þetta verkefni og það hefur mikinn stuðning hjá mér og fleirum og við höfum lagt mjög að fjármálaráðherra að það verði aukafjárveiting á aukafjárlögum núna í mars sem framlengi þetta verkefni og ég er mjög bjartsýnn á að það verði. Síðan erum við að leggja upp með aðgerðaáætlun til næstu ára um aðgerðir gegn skipulagðri glæpastarfsemi og hvað þurfi að koma til í lögum,“ segir Björgvin.
Hann segir sumar ræða um forvirkar rannsóknarheimildir í þessum efnum og ennfremur sé rætt um að banna starfsemi mótorhjólagengjanna alfarið. „Við munum fara mjög ítarlega í gegnum þetta. Hvað megi koma til til þess að styrkja þetta. En almennt var niðurstaðan sú að staðan væri mun sterkari nú en fyrir ári og þá er spurningin hvað við getum gert til þess að halda þessu áfram og bæta enn í þannig að markmiðið náist um að svo gott sem uppræta þessa starfsemi.“
Búningarnir ógnunartæki
Spurður að því hvort hann sé sjálfur hlynntur því að starfsemi mótorhjólagengjanna verði bönnuð hér á landi segir hann svo vera. „Ég veit alveg að það er ekki sjálfgefið. Það er ýmislegt sem þarf að athuga í því sambandi og gæta að en ég tel að við eigum að kanna það að banna þessa starfsemi og þessa búninga sem henni fylgja því það liggur fyrir og er sannað að þetta er skipulögð glæpastarfsemi. Skýrsla Europol frá því fyrr í vetur staðfestir það. Þetta er hluti af alþjóðlegri glæpastarfsemi og við eigum að leita allra leiða til banna slíka starfsemi.“
Björgvin segir að auk þess að banna starfsemi mótorhjólagengjanna þurfi einnig að skoða möguleikann á að banna þann einkennisfatnað sem þau hafi notað. „Búningurinn einn og sér er notaður til að hóta og ógna. Það að menn í svona búningi mæti einhvers staðar til þess að handrukka er nóg til þess að menn gefi oft eftir því að búningurinn einn og sér er ógnunartæki. Það kom fram í máli nokkurra löggæslumannanna að það þurfi að ganga svona langt til þess að uppræta þetta. Þannig að ég tel að það eiga að gera áhlaup í að leita leiða til þess að banna þessa starfsemi og þá þekktu einkennisbúninga sem henni fylgja.“