Þrátt fyrir slæmt tíðarfar í febrúar náðu stóru netabátarnir að róa duglega. Netabáturinn Geir ÞH byrjaði að róa frá heimahöfn sinni Þórshöfn í febrúar, færði sig svo yfir í Breiðafjörðinn og réri frá Grundarfirði. Þar hefur vel borið í veiði og endaði báturinn í toppsætinu með 323 tonn í 16 róðrum. Í síðustu 6 róðrum bátsins landaði Geir ÞH 171 tonni sem gerir 28,5 tonn í róðri. Tvisvar komst Geir ÞH í 38 tonn í einum róðri, segir á vef Aflafrétta.
Annar norðanbátur, Hafborg EA fór einnig út á Breiðafjörðinn og náði að komast yfir 200 tonnin. Í síðustu 7 róðrum bátsins þá fékk hann 121 tonn og tvisvar komst Hafborg EA í tæplega 26 tonna róður.
Alls níu netabátar komust yfir 200 tonnin í febrúar. Níels Jónsson EA sem landar í Dalvík og er 38 brl eikarbátur réri mjög mikið í febrúar og fór í 27 róðra og var með 110 tonn, segir á vef Aflafrétta.