Fjölskylda Daniels Markusar Hoij, sem leitað var á Sólheimajökli í nóvember sl. hefur fært Slysavarnafélaginu Landsbjörg höfðinglega gjöf til minningar um Daniel. Styrkurinn nemur 10.000 breskum pundum eða um tveimur milljónum króna.
Með þessu vill fjölskyldan koma á framfæri þakklæti til björgunarsveita sem leituðu Daniels við afar erfiðar aðstæður á jökli.
Styrkurinn mun renna til Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar og verður hann notaður til að efla þjálfun í fjallamennsku og stjórnun aðgerða á jöklum. Mun hann með þeim hætti nýtast björgunarsveitum um allt land, að því er segir á vef Landsbjargar.