Ingi F. Vilhjálmsson, fréttastjóri DV, var síðdegis í dag yfirheyrður vegna rannsóknar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í máli Gunnars Þ. Andersen, fráfarandi forstjóra Fjármálaeftirlitsins.
Ingi Freyr er með réttarstöðu sakbornings í málinu og liggur undir grun um að hafa brotið bankaleynd með því að birta trúnaðarupplýsingar um fjárhagsmálefni Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins.
Þetta kemur fram á fréttavef DV.
Rannsóknin á máli Gunnars snýst um hvort hann hafi aflað sér upplýsinga um fjárhagsmálefni Guðlaugs Þórs með ólögmætum hætti í gegnum starfsmann Landsbankans.
Á vef DV segir að í yfirheyrslunni hafi Ingi svarað spurningum lögreglunnar um umrædda frétt um Guðlaug Þór. Meðal þess sem Ingi greindi frá var að gögnin sem lágu til grundvallar fréttinni hefðu borist til blaðsins í nafnlausu umslagi síðastliðinn föstudag.
„Ég gerði lögreglunni grein fyrir því hvernig mér bárust gögnin. Þessi gögn voru undirstaðan í frétt DV um Guðlaug Þór. DV fær nánast daglega gögn og upplýsingar sem verða að fréttum. Þetta er eitt þeirra tilvika,“ segir Ingi í samtali við DV.
Ingi segir þar ennfremur að frá efnahagshruninu 2008 hafi DV beitt sér fyrir því að auka gagnsæi og stuðla að gagnrýnni og afhjúpandi opinberri umfjöllun og hafi verið kært til Fjármálaeftirlitsins vegna brota á bankaleynd með umfjöllun sinni um lánabók Kaupþings sumarið 2009.“