„Það er alveg hundleiðinlegt í sjóinn,“ segir Hallgrímur Hauksson, yfirstýrimaður á Herjólfi, sem leggur væntanlega að bryggju í Þorlákshöfn rétt fyrir klukkan sjö. „Það er mikil alda og rok, 20 metrar á sekúndu.“
Að sögn Hallgríms hafa verið miklar tafir á ferðum Herjólfs í dag, en mikill mótvindur er á leið til Eyja og seinkaði för Herjólfs um tæpa klukkustund á leið til Eyja í dag.
Skipið á eftir að fara eina ferð þangað í kvöld. „Það verður erfitt á bakaleiðinni,“ segir Hallgrímur.
Um 70 farþegar eru um borð í Herjólfi á leið til Þorlákshafnar og Hallgrímur segist ekki hafa heyrt af mikilli sjóveiki í þessu vonskuveðri.