Kvenfrelsi ein af meginstoðum VG

Femínistar flagga bleikum fánum í Bankastræti
Femínistar flagga bleikum fánum í Bankastræti mbl.is/Eyþór

Félagsmenn í Vinstri grænum í Reykjavík árétta að kvenfrelsi er ein af meginstoðum VG og beina þeim tilmælum til kjörinna fulltrúa flokksins og þingmanna hans að þeir hagi öllu sínu starfi og orðum í samræmi við það. Þetta kemur í ályktun frá félaginu.

„Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík tekur undir þá grundvallarkröfu femínismans að konur og karlar njóti jafnra réttinda, jafnt í orði sem og á borði, og tekur ennfremur undir þá greiningu femínista að það halli á konur á mörgum sviðum samfélagsins.

Jafnréttisbaráttunni er ekki lokið.

Félagsfundur Vinstri grænna í Reykjavík telur að fordómar og hatursfull orðræða kvenfyrirlitningar sem beinist  gegn konum og femínistum séu ein birtingarmynd þess ójafnréttis sem konur búa við.

Þessi orðræða er bæði kúgandi og niðurlægjandi og til þess fallin að þagga niður raddir sem benda á ójafnrétti. Það er með öllu óásættanlegt að þau sem berjast fyrir jafnrétti kynjanna og benda á skekkjuna í samfélaginu og meiðandi orðræðu í garð kvenna þurfi að þola níð og hótanir á opinberum vettvangi.

Þá áréttar fundurinn að kvenfrelsi er ein af meginstoðum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og beinir þeim tilmælum til kjörinna fulltrúa flokksins og þingmanna hans að þeir hagi öllu sínu starfi og orðum í samræmi við það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert