Þorsteinn Einarsson hæstaréttarlögmaður segist telja að lántakar sem ekki greiddu af gengistryggðum lánum sínum séu í verri stöðu en þeir sem greiddu af þeim. Hann segir að þeir sem greiddu af lánunum hluta lánstímans ættu að geta krafist samningsvaxta fyrir þann tíma, en seðlabankavextir ættu að gilda fyrir þann tíma sem ekki var greitt af lánunum.
„Dómar um gengislán hafa að jafnaði svarað 1-2 spurningum, en opnað fyrir 4-5 um leið. Við stöndum enn frammi fyrir því að það er ótal spurningum enn ósvarað eftir þennan langa tíma sem liðinn er frá hruni og er það nánast böl á þessu þjóðfélagi,“ sagði Þorsteinn á fundi hjá Samtökum iðnaðarins um gengislánadóminn.
Þorsteinn sagði að dómurinn hefði áhrif á lán fyrirtækja eins og lán einstaklinga. Dómurinn ætti við um allar tegundir lána, ekki aðeins húsnæðiskaupasamninga. Hann ætti við um fjármögnunarleigufyrirtæki, kaupleigusamninga og önnur lánsform. Enda byggði Hæstiréttur dóminn á kröfurétti, en ekki neytendasjónarmiðum.
„Ég tel að dómurinn hafi ekki fordæmi fyrir þá skuldara sem ekki hafa staðið í skilum með greiðslu samningsvaxta og það séu mörg rök sem hnígi að því að þeir aðilar séu í miklu verri stöðu en þeir sem hafa greitt af sínum lánum, svo merkilegt sem það kann að vera. Ástæðan er þessi röksemdafærsla Hæstaréttar að fullnaðarkvittun skipti öllu. Dómurinn svarar ekki spurningunni um þá sem eru í vanskilum, en ég tel að leiði af dómum Hæstaréttar að það sé líklegt að þeir aðilar sitji í súpunni, ef svo má að orði komast,“ sagði Þorsteinn.
Þorsteinn setti þó ákveðinn fyrirvara á þetta og sagðist reikna með að það reyndi á þessa spurningu fyrir Hæstarétti, hver staða þeirra sem ekki hefðu greitt af lánum væri.
Á fundinum var hann spurður hvernig ætti að reikna vexti þegar lántakar hefðu greitt af lánum hluta samningstímans en ekki allan. Hann svaraði því til að þá ætti að reikna samningsvexti (2-5% Libor-vexti) þann tíma sem greitt hefði verið af lánum, en óverðtryggða vexti Seðlabankans þann tíma sem lánin voru ekki í skilum, en þeir vextir eru mun hærri.