Ósamræmis gætir á milli ummæla Steingríms J. Sigfússonar, efnahags- og viðskiptaráðherra, í samtali við Ríkisútvarpið í dag um skipun peningamálastefnunefndar og tölvupósts sem ráðuneytisstjóri efnahags- og viðskiptaráðuneytisins ritaði Jóhannesi Þór Skúlasyni, aðstoðarmanni formanns Framsóknarflokksins, um sama mál í janúar síðastliðnum.
Steingrímur sagði í samtali við RÚV að nefndin yrði skipuð á næstu dögum. Það hefði hins vegar staðið á því að fá síðustu tilnefningarnar í hana og dregist að skipa nefndina. Það væri þó ekki vegna sinnuleysis ráðuneytisins heldur hefði tekið tíma að fá tilnefningar og ganga frá erindisbréfi.
Í tölvupósti frá Helgu Jónsdóttur, ráðuneytisstjóra efnahags- og viðskiptaráðuneytisins, dagsettum 9. janúar síðastliðinn segir hins vegar að gengið hafi verið frá öllum tilnefningum í peningamálastefnunefndina í desember.
„Allar tilnefningar höfðu borist í nefndina síðari hluta desember og var gert ráð fyrir fyrsta fundi fyrir áramót. Formaður átti að vera þáverandi aðstoðarmaður efnahags- og viðskiptaráðherra sem nú er horfinn úr starfi. Núverandi ráðherra hefur í huga að fela öðrum aðila að leiða nefndarstarfið. Ég vænti þess að það verði alveg á næstunni og þá verði nefndin kölluð saman og fái í hendur skipunarbréf,“ segir í tölvupóstinum.
Þess má geta að afrit af tölvupóstinum var sent á Steingrím sem og aðstoðarmann hans.