Dýralíf í Grímsey er áberandi fjölskrúðugt þessa dagana en fyrir um hálfum mánuði fór svartfuglinn að setjast upp í björgunum í Grímsey og þykir það óvenju snemmt. Á vefsvæði Akureyrarbæjar segir að þetta sýni að vorið láti nú á sér kræla norður við heimskautsbaug.
Viðmælandi vefsvæðisins í Grímsey segir að langvía og stuttnefja fylli nú allar syllur við hreiðurgerð og álkan er væntanleg í urðina fyrir neðan. „Svo virðist sem svartfugli hafi fjölgað mjög við heimskautsbauginn á síðustu árum og telja Grímseyingar að fuglinn setjist upp svona snemma til að tryggja sér hreiðurstað.“
Milt og gott veður hefur verið í Grímsey undanfarið og hvalir gert sig heimakomna við eyjuna, einkum hnúfubakur. Þá segja sjómenn loðnu vaða um allan sjó, og aflabrögð hafi verið með endemum góð.