Bæði kostir og gallar myndu fylgja upptöku Íslendinga á Kanadadollara. Yrði af því myndu Íslendingar missa stjórn á eigin gjaldmiðli, sem getur verið mikilvæg vörn gegn efnahagslegum áföllum. En á móti fengju Íslendingar stöðugan gjaldmiðil, sem þeir gætu notað í alþjóðaviðskiptum.
Þetta segir Finn Poschmann, varaforseti rannsókna hjá kanadísku C.D. Howe stofnuninni í samtali við kanadíska vefritið Canada.com.
Hugmyndir um að Íslendingar tækju upp Kanadadollara hafa vakið mikla athygli þar í landi og hefur verið haft eftir kanadíska utanríkisráðuneytinu að nauðsynlegt sé að það liggi fyrir að það sé vilji bæði íslenskra stjórnvalda og almennings að taka upp Kanadadollar til þess að hægt sé að ræða þann möguleika.
Verða að deila efnahagsstefnu
Maurice Levi, prófessor í alþjóðafjármálum við háskólann í Bresku Kólumbíu segir að hann telji nokkrar ástæður vera fyrir því að Íslendingar velti fyrir sér upptöku Kanadadollars. Sú stærsta sé sú að efnahagur beggja þjóða byggist aðallega á vöruskiptum.
„Þegar þjóð tekur upp gjaldmiðil annarrar þjóðar, þá deilir hún einnig efnahagsstefnu hennar,“ segir Levi. „Þegar vextir hækka í öðru landinu, gerist það sama í hinu. Þetta gengur eingöngu ef þjóðirnar eru í gagnkvæmum tengslum, að öðrum kosti er sífelldur núningur.“
Hann bendir á að Íslendingar séu afar fáir og þjóðin einsleit. Kanadíska þjóðin sé aftur á móti fjölbreytileg og það geri Kanadadollarann miklu hæfari til að standa af sér efnahagsþrengingar.
Jákvæð áhrif á fjárfestingar
„Það er engin tilviljun að Íslendingar eru að velta Kanadadollara fyrir sér. Hann hefur aukið verðgildi sitt um 60%, sem hefur haft í för með sér bætt lífskjör Kanadamanna
Hann bendir jafnfram á að það myndi hafa verulega jákvæð áhrif á fjárfestingar á Íslandi, yrði af upptökunni.
Í grein Canada.com segir að viðskipti á milli landanna tveggja séu óveruleg og samanstandi annars vegar af útflutningi Kanadamanna á bifreiðum og vélum og að Íslendingar selji þeim fisk, skip og vélar.
Í greininni er talað um hversu vel Íslendingum hafi tekist að komast upp úr efnahagslegum öldudal og til marks um það er nefnt að matsfyrirtækið Fitch hafi nýlega hækkað lánshæfismat landsins.
Yrði af upptöku Kanadadollara á Íslandi, væri það ekki í fyrsta skipti sem þjóð tæki einhliða upp mynt annarrar þjóðar. Til dæmis nota mörg Suður-Ameríkuríki Bandaríkjadollar.