Fagnar ákvörðun Ólafs

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, á Bessastöðum þegar Ólafi voru afhentar …
Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, á Bessastöðum þegar Ólafi voru afhentar undirskriftirnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég fagna þessari niðurstöðu. Hann verður við þessari áskorun og ég fagna því bara. Þetta er mikið atriði við núverandi aðstæður þar sem hann er bæði öruggur og djarfur og þorir að grípa í taumana og virkja þjóðarviljann,“ segir Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, í samtali við mbl.is en hann var einn þeirra sem stóðu að undirskriftasöfnun þar sem skorað var á Ólaf Ragnar Grímsson, forseta Íslands, að gefa áfram kost á sér í embætti.

„Hann hefur sýnt mikið öryggi og festu og þorað, talað máli Íslendinga erlendis. Þannig að hann hefur verið sterkur rökræðumaður fyrir þjóðina og bent á framtíðarsýnir sem skipta máli og möguleika,“ segir Guðni.

„Ég gerði mér vonir um þessa niðurstöðu en ég var ekki klár á því þar sem hann hefur aldrei rætt þetta við mig persónulega,“ segir Guðni aðspurður hvort hann hafi búist við því að Ólafur myndi ákveða að bjóða sig fram aftur líkt og hann tilkynnti fyrr í dag.

Spurður út í þau ummæli Ólafs í yfirlýsingu sinni að hann kunni að hætta áður en kjörtímabilinu ljúki og hverfa til annarra verkefna þegar meiri stöðugleiki skapist í þjóðfélaginu segir Guðni það vera heiðarlega yfirlýsingu.

„Hann er búinn að vera lengi í embættinu. Hann er orðinn þetta fullorðinn, á þeim aldri þegar menn fara að hætta störfum, þannig að mér finnst þetta bara heiðarleg yfirlýsing af hans hálfu. Það kemur þá ekkert á óvart ef það gerist. Mér finnst þetta bara styrkja stöðu hans,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert