Fékk ekki að vera með skóflu í leigubíl

Nokkuð annasamt var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu nú í morgunsárið. Meðal þeirra verkefna sem lögreglan fékkst við voru líkamsárásir, maður brást ókvæða við þegar hann mátti ekki koma inn í leigubíl með skóflu og einnig var nokkuð um rúðubrot og skemmdir á bifreiðum.

Tilkynnt var um líkamsárás um klukkan hálf fimm við veitingastað við Bæjarlind.  Þar var maður handtekinn vegna líkamsárásar, ölvunar og að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.  Ekki er á þessu stigi vitað um meiðsl. 

Rétt eftir klukkan fimm var tilkynnt um að maður væri að berja bifreiðar sem óku um Lækjargötu.  Þegar að var gáð var maðurinn farinn og enginn gaf sig fram við lögreglu. 

Um hálfsexleytið var tilkynnt um rúðubrot í húsi við Laugaveg.  Þar hafði maður brotið ytra byrði og hlaupið að því búnu niður Laugaveginn. Á sama tíma var maður handtekinn á Lækjartorgi fyrir að hafa ítrekað veist að fólki.  Honum voru ítrekað gefin fyrirmæli af lögreglu að láta af þessari hegðan en án árangurs og tók lögregla þá til þess bragðs að taka hann höndum og gisti hann fangageymslu í nótt.

Á sama tíma var tilkynnt til lögreglu að maður hefði brotið hliðarspegil á bifreið og farið af staðnum í annarri bifreið.  Tjónþoli hyggst leggja fram kæru vegna þessa en ekki náðist í tjónvald. 

Um svipað leyti var tilkynnt um rúðubrot í veitingastað við Austurstræti.  Þar höfðu dyraverðir handsamað geranda.  Rætt var við hann á vettvangi, skýrsla tekin og honum sleppt að því loknu. 

Rétt eftir klukkan sex í morgun óskaði leigubifreiðarstjóri á Laugavegi eftir aðstoð lögreglu.  Þar hafði óánægður viðskiptavinur slegið utan í bifreiðina með skóflu þegar honum var meinuð innganga í bifreiðina með þessa skóflu.  Viðkomandi var handtekinn og vegna ástands vistaður í fangageymslu. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert