Fylgi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs mælist nú mun minna samkvæmt nýjasta þjóðarpúls Capacent Gallups sem birtur var í gær en flokkurinn fékk í þingkosningunum 2007 en þá var fylgi hans 14,4%. Fylgið nú mælist hins vegar 12%. Í síðustu kosningum vorið 2009 fékk VG hins vegar 21,7%, en hlutfallslegt fylgistap flokksins síðan þá miðað við könnun Capacent Gallups er 44,7%.
Vinstri-grænir hafa þannig misst nær helming fylgis síns síðan í kosningunum fyrir tæpum þremur árum eða tæplega 10% miðað við síðustu skoðanakönnun Capacent Gallups. Fylgi VG hefur ekki mælst jafnlítið í þjóðarpúlsinum síðan í október 2003 eða í rúm átta ár.
Hliðstæða sögu er að segja af hinum stjórnarflokknum, Samfylkingunni, en samkvæmt skoðanakönnuninni í gær hefur hann tapað rúmlega 11% síðan í síðustu þingkosningum 2009 og þannig farið úr 29,8% niður í 18,7% nú. Hlutfallslega er fylgishrunið þó minna en hjá VG eða 37,2%. Fylgi Samfylkingarinnar hefur ekki verið minna síðan í október 2010 samkvæmt þjóðarpúlsinum.
Ljóst er að ríkisstjórnin hefur glímt við mörg erfið verkefni síðan hún tók við völdum og gengið í gegnum ýmis áföll. Hvað sem því líður er ljóst að fylgishrun stjórnarflokkanna er gríðarlegt. Samanlagt fá stjórnarflokkarnir 30,7% fylgi og hafa flokkarnir saman tapað tæplega 21% fylgi.
Til samanburðar má nefna að Sjálfstæðisflokkurinn missti 12,9% fylgi í þingkosningunum 2009 miðað við kosningarnar 2007 og fór úr 36,6% fylgi í 23,7%. Hlutfallslega missti flokkurinn 35,2% af fylginu á milli kosninga en eins og þekkt er galt hann afhroð í kosningunum 2009.
Setja verður þó þann eðlilega fyrirvara að í dæminu um Sjálfstæðisflokksins er um að ræða tvennar kosningar en í tilfelli Samfylkingarinnar og VG er um að ræða kosningar annars vegar og skoðanakönnun hins vegar.