Hugmyndir SPITAL traustar

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

„Þetta eru hugmyndir sem hafa verið kynntar áður svo þetta er ekkert nýtt,“ segir Helgi Már Halldórsson, hönnunarstjóri SPITAL, og vísar til ummæla Páls Torfa Önundarsonar, yfirlæknis á LSH, þess efnis að það deiliskipulag sem nú sé unnið eftir um nýjan Landspítala sé of stórt og skaði borgarlandslagið.

Í frétt mbl.is um málið í gær er m.a. haft eftir Páli Torfa að ekki sé einungis um að ræða byggingu sjúkrahúss, heldur verði einnig að hugsa um ásýnd borgarinnar. 

„Meginmálið í þessu er að við erum að fást við að stækka spítalann á Hringbraut og það þarf að gerast þannig að spítalinn sé í fullri starfsemi á meðan,“ segir Helgi Már en hugmyndir Páls Torfa ganga út á að eldri byggingar séu notaðar og byggt verði í kringum þær á norðursvæðinu. 

„Að byggja upp að gömlu húsunum og gera þau að ráðandi forsendu fyrir nýjum spítala  er mjög slæm hugmynd vegna þess að þá stýrir hið slæma í gömlu húsunum því nýja,“ segir Helgi Már og bætir við að flæði og samhengi starfsemi spítalans sé grundvallaratriði verkefnisins. 

„Það að halda áfram að prjóna við vandræðin sem að eru í gömlu húsunum og menn vilja losna við er galin hugmynd.“

Hugmynd SPITAL-hópsins gengur hins vegar út á að byggja fyrsta áfangann sér, koma þyngstu starfseminni fyrir og nota eldri húsin á meðan þar til þau geta tekið við léttari verkefnum. 

„Við erum að vinna núna að áætlun sem gengur út á að skoða hversu langan tíma það tekur að byggja þetta og hvernig við höldum spítalanum gangandi á meðan. Ég fullyrði það að það er útilokað að nálgast verkefnið með þeim hætti sem Páll Torfi og Magnús Skúlason virðast gera.“

Skaðar ekki borgarmyndina

Helgi Már tekur ekki undir þá gagnrýni að deiliskipulag þeirra skaði borgarmyndina. „Það er auðvitað ljóst að borgarmyndin breytist þegar verið er að byggja stórar byggingar en að hún sé sköðuð erum við ekki sammála um,“ segir Helgi Már en hann telur að lausn hópsins samsvari sér vel með hugmyndum borgaryfirvalda hvað ásýnd varðar.

„Okkur hefur tekist að skapa lausn sem í senn er hógvær en leysir jafnframt vandamál tengd flókinni starfsemi spítalans. Þetta er sú leið sem valin var eftir samkeppnina og við teljum þetta mjög góða leið.“

Þá segir hann SPITAL-hópinn hafa unnið í nánu og góðu samstarfi við hátt í 100 starfsmenn Landspítalans í eitt og hálft ár. Eftir þá vinnu, sem ætlað var að móta tillögu hópsins enn frekar, stendur hún nær óbreytt. „Þetta segir okkur það að hugmyndin heldur. Starfsemi spítalans og þetta mikilvæga samhengi stendur,“ segir Helgi Már.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert