„Þetta er ákveðinn millileikur hjá honum á meðan ákveðinn óvissutími er til staðar og þá sérstaklega hvað varðar stjórnarskrármálið,“ segir Stefanía Óskarsdóttir, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, spurð um ákvörðun Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að gefa kost á sér til áframhaldandi setu í embætti.
Fram kemur í yfirlýsingu Ólafs að hann kunni að hverfa til annarra verka áður en næsta kjörtímabil er á enda nái hann endurkjöri „þegar stöðugleiki hefur skapast í stjórnskipan landsins og stjórnarfari og staða okkar í samfélagi þjóðanna hefur skýrst“.
Stefanía segir að það sé ákveðinn þráður í málflutningi Ólafs að þessu leyti. Hann hafi talað á hliðstæðum nótum við fjölmiðla bæði á síðasta ári og 2010 og vísað í óvissu í ýmsum málum þjóðarinnar og ekki síst um það hvernig hlutverk forseta væri hugsað samkvæmt drögum að nýrri stjórnarskrá sem stjórnlagaráð hafi samið.
Hún nefnir að Ólafur hafi oft verið harðorður um frammistöðu íslenskra stjórnvalda meðal annars við að gæta hagsmuna þjóðarinnar á alþjóðavettvangi og að ekki sé ólíklegt að búast megi við því að hann veiti stjórnvöldum ekki síður slíkt aðhald á næsta kjörtímabili nái hann endurkjöri.
Aðspurð segist Stefanía ekki hafa trú á því að um sé að ræða hannaða atburðarás af hálfu Ólafs eins og sumir hafa haldið fram. Hins vegar sé ljóst að hann hefði vel getað stöðvað allar vangaveltur um að hann ætlaði að bjóða sig fram áfram og hvatningaraðgerðir í þeim efnum ef hann hefði verið alfarið búinn að loka á þann möguleika.
Ólafur hafi þannig greinilega ekki verið búinn að loka alfarið á að bjóða sig fram aftur þegar hann flutti nýársávarpið um síðustu áramót að sögn Stefaníu.