Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins sem gefur kost á sér sem 2. varaformaður flokksins, segir brýnt að kosið verði sem fyrst. Alþingi, eins og það sé samsett í dag, geti ekki boðið upp á meirihlutastjórn. Þingmenn séu orkulausir og þingið sé búið að „tæma batteríin“.
Þetta sagði Kristján Þór í þætti Sigurjóns M. Egilssonar, Sprengisandi, á Bylgjunni í morgun.
„Við þurfum tvennar til þrennar kosningar áður en við getum boðið upp á stöðugleika í stjórnarfari,“ sagði Kristján Þór. Hann sagði að núverandi ríkisstjórn hefði enga burði til að koma „stóru málunum“; stjórn fiskveiða, Evrópusambandsaðild og efnahagsmálum, í þann farveg sem hún vildi. „Forsendur til að koma á meiri stöðugleika eru brostnar,“ sagði Kristján Þór. „Alþingi Íslendinga, eins og það er samsett í dag, getur ekki boðið upp á meirihlutastjórn.“
Hann sagði Alþingi vera orkulaust, stjórnmálamenn sæktu að öllu jöfnu orku sína til kjósenda, en sú orka væri á þrotum vegna mikils álags og ósamlyndis. „Þetta þing sem er búið að sitja síðan í apríl 2009 er búið að tæma sín batterí,“ sagði Kristján Þór. „Þess vegna er ég þeirrar skoðunar að við eigum að hafa kosningar sem fyrst.“