Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í ýmis horn að líta í gærkvöldi og í nótt. Meðal þess sem laganna verðir fengust við var innbrot, umferðaróhapp og akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Um hálfníuleytið í gærkvöldi var tilkynnt innbrot í íbúð á Álftanesi. Farið hafði verið inn um glugga á íbúðinni, en ekki er vitað hvort eða hverju var stolið.
Rétt fyrir klukkan níu var ökumaður bifreiðar stöðvaður á Suðurlandsvegi grunaður um ölvun við akstur. Hann var frjáls ferða sinna að lokinni upplýsinga- og sýnatöku.
Skömmu fyrir klukkan fjögur í nótt var tilkynnt umferðaróhapp á Vesturlandsvegi. Þar hafði bifreið verið ekið á umferðarmerki. Ökumaður er grunaður um akstur undir áhrifum lyfja og var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.
Maður var stöðvaður við akstur bifreiðar í Austurbergi rétt eftir klukkan fjögur í nótt, en hraðamælingar sýndu að hann ók of greitt. Hann er grunaður um ölvun við akstur eða að hafa ekið undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hann var látinn laus að lokinni upplýsinga- og sýnatöku.