Vill niðurfellingu erlendra skulda

Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins.
Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins. mbl.is/Golli

„Umræðan um efnahagsmál er vægast sagt undarleg. Augljóst er að helsti vandi íslensks efnahagslífs eru gríðarlegar erlendar skuldir þjóðarbúsins. Skuldahlassið verður til þess að íslenska krónan fellur í verði, þrátt fyrir gengishöft og jákvæðan vöruskiptajöfnuð,“ segir Sigurjón Þórðarson, formaður Frjálslynda flokksins og fyrrum alþingismaður, á heimasíðu sinni í dag.

Hann segir að vandamálið sé að vextirnir af erlendum skuldum þjóðarbúsins séu allt of þungur baggi á þjóðfélaginu. „Borðleggjandi er að vandinn verður einungis leystur með því annars vegar að auka verðmætasköpun og gjaldeyrisöflun samfélagsins og hins vegar að semja um niðurfellingu á erlendum skuldum.“

Sigurjón segir að fulltrúar og álitsgjafar fjórflokksins, fyrir utan Vinstrihreyfinguna - grænt framboð, láti í það skína að hægt sé að leysa allan vanda með því að taka upp annan gjaldmiðil. „Eitt er víst að erlendu skuldirnar gufa ekki upp við það eitt og ef þær eru ósjálfbærar halda þær áfram að draga efnahagslegan mátt úr samfélaginu.“

Þá segir hann einkennilegt að fylgjast með þórðargleði stuðningsmanna inngöngu í Evrópusambandið yfir gengisfalli íslensku krónunnar. „Vissulega er íslenska krónan hálfgerður Trabant sem þarf að skipta út. Hvert svo sem tækið verður, sem Íslendingar hyggjast notast við í vöru- og þjónustuskiptum í framtíðinni, þá er ljóst að forgangsverkefnið ætti að vera að  ryðja í burt ófærum í íslensku efnahagslífi.“

Heimasíða Sigurjóns Þórðarsonar

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert