„Allir eru harmi slegnir yfir þessu, við áttum ekki von á að fá að sjá og heyra svona fréttir,“ segir Kristín Edwald, formaður Lögfræðingafélags Íslands, um líkamsárásina á lögmannsstofu í Lágmúla í morgun, þar sem einn er alvarlega slasaður og annar særður eftir að hafa reynt að skakka leikinn.
Kristín segist aðeins hafa fengið fregnir af atburðum gegnum fjölmiðla en því miður sýni þetta mál að lögfræðingastéttin þurfi að taka til umfjöllunar og endurskoðunar öryggismálin. Lögmenn hafi eftir hrunið fengið hótanir frá fólki en þegar farið sé að beita ofbeldi séu málin komin á allt annað og alvarlegra stig.